Kortavelta innlendra greiðslukorta nam ríflega 110 milljörðum króna í október síðastliðnum og stóð nánast í stað milli ára, samkvæmt gögnum Seðlabankans.

Sé leiðrétt fyrir þróun verðlags og gengis krónu skrapp kortavelta heimila saman um 6,9% á milli ára í október. Greining Íslandsbanka bendir í grein á vef bankans í dag að um er að ræða mesta samdrátt sem mælst hefur á milli ára síðan í ársbyrjun 2021 þegar áhrif faraldursins á neyslu heimila voru sem sterkust.

„Tíðar vaxtahækkanir og mikil verðbólga virðist vera farin að hafa veruleg áhrif á neyslu landsmanna og líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé á lokametrunum,“ segir í grein Berg­þóru Bald­urs­dótt­ir, hagfræðings Greiningar Íslandsbanka.

Kortavelta heimila innanlands dróst saman um 4,8% að raunvirði á milli ára en kortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um 14% á sama tímabili. Kortavelta heimila innanlands hefur nú skroppið saman sjö mánuði í röð á meðan samdráttur hefur mælst í kortaveltu erlendis undanfarna fimm mánuði.

Þessi samdráttur er að mati höfundar vísbending um áframhaldandi breytingar á neyslutakti landsmanna. „Heimilin virðist vera að halda áfram að stíga þétt á bremsuna eftir mikla neyslugleði síðastliðin tvö ár.“

Þannig jókst einkaneysla um 8,5% að raunvirði í fyrra. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var vöxturinn talsvert hægari á fyrri hluta þessa árs eða um 2,5% og þar af einungis 0,5% á öðrum ársfjórðungi. Þá sé útlit fyrir að vöxtur einkaneyslu verði enn hægari á seinni hluta ársins.

„Flestir aðrir hagvísar sem alla jafna gefa góða vísbendingu um um einkaneysluna benda einnig til hægari vaxtar næsta kastið. Helst má þar nefna að íslensk heimili virðast vera orðin ansi svartsýn um stöðu efnahagsmála samkvæmt Væntingavísitölu Gallup en í október mældist hún í sínum lægstu gildum frá árslokum 2020.“

Vaxtahækkunarferlinu mögulega lokið

Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er á miðvikudaginn. Nefndin ákvað á síðasta fundi sínum í byrjun október að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% og væntingar eru um að hún muni í annað skiptið í röð halda vöxtum óbreyttum.

„Einkaneysla hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar síðustu misseri og hægari vöxtur hennar skýrir bróðurpart minni hagvaxtar sem útlit er fyrir í ár. Peningastefnunefnd Seðlabankans hlýtur að horfa til þessa og líklegt er að vaxtahækkunarferlinu sé senn að ljúka, ef það er þá ekki nú þegar á enda runnið,“ segir Greining Íslandsbanka.