Bæjarins Beztu er eitt þekktasta fyrirtæki landsins og með þeim elstu, enda sérhæft sig alfarið í sjálfum þjóðarréttinum í heil 90 ár, þótt á því sé nú að verða breyting með útvíkkun vöruframboðsins í nokkuð óvænta átt.

„Það þarf varla að kynna okkur mikið, en við höfum verið fjölskyldufyrirtæki alla tíð,“ segir Baldur Ingi Halldórsson, eigandi og framkvæmdastjóri, en félagið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi. „Ég er fjórða kynslóð af pylsusölum. Ég er að taka við af móður minni, sem tók við af pabba sínum, sem aftur hafði tekið við af pabba sínum.“

Þrátt fyrir langa sögu og litlar sem engar breytingar á grunnstarfseminni og nálgun hefur á ýmsu gengið síðustu ár, og tæpast hægt að segja að félagið sigli lygnan sjó. Baldur segir fyrirtækið hafa vaxið einstaklega vel undanfarin ár og náð að snúa vörn í sókn í faraldrinum eins og hann kemst að orði.

Síðan þá hefur fjöldi sölustaða meira en tvöfaldast, úr 5 í 12, en þar af eru fjórir nýir staðir í Keflavík, þrír þeirra á flugvellinum.

Bolir, peysur, bollar, húfur og svuntur

Hin sögufræga og þjóðþekkta pylsusala hefur þó ekki aðeins verið að færa út kvíarnar hvað sölustaði varðar, því eftir tæpa öld í rekstri hefur loks bæst við ný og gerólík vörulína, sem fengið hefur afar góðar viðtökur.

Eitt af því sem tekið var upp á í faraldrinum til að drýgja tekjurnar fyrir um tveimur árum síðan var að selja föt. Í fyrstu var aðallega selt til Bandaríkjanna, en nú hefur hin nýja tekjulind vaxið upp í fullgilda búð með varning merktan fyrirtækinu.

„Við breyttum heimasíðunni bara og fórum að selja mikið til Bandaríkjanna, sem við gerum enn, en síðan erum við farin að moka þessum varningi út í Leifsstöð,“ segir Baldur og nefnir meðal annars boli, peysur, bolla, húfur og svuntur.

„Skortir algerlega fagmennsku í heilbrigðiseftirlitið“

Þótt grunnreksturinn og verklag hafi í raun sáralítið breyst á öllum þeim tíma sem fyrirtækið hefur verið starfandi hafa áskoranirnar verið ólíkar í gegnum tíðina. Ein sem hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil í seinni tíð er samskipti við eftirlitsaðila, sem Baldri þykir nokkuð kaldhæðnislegt.

Baldur rekur vandann að mestu til hárrar starfsmannaveltu meðal eftirlitsmanna og skorts á samræmingu þegar kemur að túlkun matskenndra reglugerðarákvæða. „Afleiðingin er sú að það skortir algerlega fagmennsku í heilbrigðiseftirlitið.“

Hann sér þó einnig annan og djúpstæðari undirliggjandi vanda við núverandi fyrirkomulag, og er alveg með það á hreinu hvernig best væri að taka á honum.

Það sem vantar fyrst og fremst í þessa framkvæmd er samkeppni. Ef eftirlitið væri einfaldlega gefið frjálst og hver sem er mætti sinna því, rétt eins og við gerum með bifreiðaskoðanir í dag, þá væri strax kominn mun sterkari hvati og þrýstingur til að sinna þessu af fagmennsku og þannig að allir séu sáttir.“

Nánar er rætt við Baldur í sérblaði Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing. Hægt er að nálgast viðtalið í heild hér.