Flugfélagið Play flutti 144.746 farþega í september 2024, sem er 14,7% samdráttur á farþegafjölda frá fyrra ári þegar Play flutti 163.784 farþega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Sætanýting jókst hins vegar úr 85,0% í fyrra í 87,3% í september í ár. Stundvísi Play í september var þá 90,5%, en var 85,1% í september í fyrra.

„Af þeim farþegum sem flugu með Play í september voru 28,3% á leið frá Íslandi, 35,8% voru á leið til Íslands og 35,9% voru tengifarþegar (VIA). Hlutdeild Play á heimamarkaði jókst um 9% á milli ára, en farþegum sem flugu frá Íslandi fjölgaði úr nærri 38 þúsund í september í fyrra í nærri 41 þúsund í ár,“ segir jafnframt í tilkynningu.

Sætanýting á Norður-Ameríkuleiðum Play náði 89,7%, og hefur aldrei verið hærri í einum mánuði. Þar að auki jókst sætanýting á leiðum Play til borgaráfangastaða í Evrópu um 6%.

„Við sáum talsverðar framfarir í rekstri félagsins í septembermánuði þrátt fyrir að farþegum hafi fækkað á milli ára. Sætanýtingin jókst til að mynda um 2,3 prósentustig, og hlutdeild okkar á heimamarkaði heldur áfram að aukast, sem er merki um hversu ánægðir Íslendingar eru með okkar þjónustu,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.