Skemmtiferðaskipafyrirtækið Royal Caribbean kynnti nýjasta skipið sitt, Icon of the Seas, í byrjun árs en skemmtiferðaskipið er það stærsta í heiminum. Skipið getur tekið 7.600 farþega og er sagt vera mjög þróað miðað við önnur skip.

Fréttamiðillinn Financial Times fjallar um skipið og segir það vera dæmi um þann bata sem skemmtiferðaskipaiðnaðurinn hefur náð á undanförnum fjórum árum eftir það varð eitt helsta fórnarlamb heimsfaraldursins.

Bókunum hefur fjölgað umtalsvert og eru viðskiptavinir að verða sífellt yngri. Farþegar eru ekki lengur aðeins lífeyrisþegar og eru margir enn að uppfylla ferðaþörfina eftir Covid.

Viking Holdings, fyrirtækið sem rekur meðal annars Norwegian Cruise Line, átti meðal annars næststærsta frumútboð það sem af er ári fyrr í þessum mánuði. Markaðsvirði fyrirtækisins, sem býður til að mynda upp á 87 daga siglingu frá norðurskautinu til suðurskautsins, er nú 12,7 milljarðar dala.

Í heildina er búist við að allt að 34,7 milljónir farþega um allan heim muni fara um borð í skemmtiferðaskip á þessu ári en það er 17% meira en árið 2019.