Play flutti 173.109 farþega í júní 2024, sem er 7,5% meira en í júní í fyrra þegar félagið flutti 160.979 farþega, samkvæmt Kauphallartilkynningu félagsins.
Sætanýting flugfélagsins í júní 2024 var 86,0%, sem er minna en á sama tíma í fyrra þegar sætanýting var 87,2%.
„Við erum ánægð að sjá vöxt í farþegatölunum en hefðum viljað sjá hærri sætanýtingu. Þessa niðurstöðu má rekja til aukinnar samkeppni í flug yfir Atlantshafið og til fækkunar farþega til Íslands sem er afleiðing af öflugu markaðsstarfi sem nágrannaríki okkar hafa ráðist í. Við trúum því staðfastlega að með samhentu átaki ferðaþjónustunnar og íslenska ríkisins sé hægt að auka eftirspurnina eftir ferðum til Íslands, líkt og við höfum áður greint frá. Með réttum skilaboðum og öflugri herferð ættum við að geta laðað gesti til Íslands til að upplifa okkar stórbrotna land,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Samkvæmt Play voru nokkrir þættir sem höfðu áhrif á sætanýtinguna en helsta ástæðan var aukið framboð á flugsætum yfir Atlantshafið frá samkeppnisaðilum.
Framboð sætiskílómetra (ASK) hjá Play jókst þó um 8,8% á milli ára og 7,3% aukning varð á seldum sætiskílómetrum (RPK).
„Við erum ánægð að sjá að við erum enn að auka hlut okkar á íslenska markaðinum. Íbúar Íslands hafa tekið þjónustu okkar fagnandi og augljóst að áhersla okkar á að vera leiðandi í sólarlandaflugi frá Íslandi er að leggjast vel í markaðinn. Stundvísi félagsins í liðnum júní var framúrskarandi og á samstarfsfólk mitt á flugrekstrarsviði PLAY allt hrós skilið fyrir að tryggja að 91,4% flugferða okkar voru á réttum tíma,“ segir Einar Örn.
Hlutfall farþega sem flugu með Play frá Íslandi jókst úr 29,8% í júní í fyrra í 31,9% á þessu ári, sem flugfélagið segir að sýni áframhaldandi vöxt Play á íslenska markaðinum.
„Okkur var svo mikill heiður sýndur í júní þegar við vorum valin besta lággjaldaflugfélag Norður-Evrópu annað árið í röð. Þá náðum við sömuleiðis aftur inn á listann yfir 100 bestu flugfélög heims og hækkuðum okkur meira segja um fjögur sæti. Þetta er afrakstur þrotlausrar vinnu starfsfólks PLAY við að veita farþegum okkar bestu þjónustu sem völ er á og ég er virkilega þakklátur fyrir þetta frábæra framlag kollega minna.“