Flugfélagið Play flutti samtals 128.119 farþega í apríl 2025, sem er 5% aukning frá sama mánuði í fyrra þegar farþegafjöldinn nam 122.217.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu félagsins endurspeglar vöxturinn stöðuga eftirspurn á kjarnamörkuðum félagsins og sýnir að áherslubreytingar í leiðakerfi, með aukinni áherslu á sólarlandaáfangastaði, eru að skila tilætluðum árangri.
Sætanýting var 82,6% í apríl 2025, samanborið við 85,1% í sama mánuði 2024. Þó að þessi breyting sýni lækkun má hana að mestu rekja til meiri áherslu á beint flug frá Íslandi til Suður-Evrópu, segir félagið.
Slíkar leiðir eru almennt með lægri sætanýtingu þar sem tengifarþegar (VIA) eru færri, en í staðinn skila þær að jafnaði meiri einingatekjum þar sem verð á slíkum ferðum er yfirleitt hærra og eftirspurnin stöðug yfir sumartímann.
Hlutfall farþega sem ferðuðust frá Íslandi jókst í 36,9%, úr 30,0% í apríl 2024. Einnig jókst hlutfall farþega til Íslands úr 27,0% í 31,8%.
Hins vegar lækkaði hlutfall tengifarþega (VIA) úr 43,0% í 31,3%. Þessi þróun sýnir hvernig félagið hefur vísvitandi minnkað vægi tengiflugstefnunnar og fært fókus yfir á beint flug sem betur þjónar bæði íslenska markaðnum og ferðamönnum til landsins.
Horfur fyrir sumarið 2025 eru góðar að mati félagsins.
Sætanýting og einingatekjur eru að batna miðað við sama tímabil í fyrra og bókunarstaða farþega til og frá Íslandi er sterk. PLAY bætir við enn frekara flugframboði og opnar í sumar tvær nýjar leiðir til vinsælla sólarlanda: Antalya í Tyrklandi og Faro í Portúgal.
„Frammistaðan í apríl sýnir að nýja stefnan okkar er að skila árangri og á samstarfsfólk mitt hjá PLAY allt lof skilið fyrir að láta nýja viðskiptalíkanið okkar verða að veruleika. Við sjáum mikla eftirspurn á lykilmörkuðum og áherslunni á flug til sólarlanda er vel tekið. Þó að þessar leiðir séu jafnan með aðeins lægri sætanýtingu, eru þær með hærri tekjur og aukna arðsemi. Bókunarstaðan er góð fyrir komandi mánuði og við sjáum fram á gott sumar þar sem við munum leggja okkur öll fram við að veita farþegum okkar frábæra þjónustu á góðu verði,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.