Hlutabréfaverð Heima leiddi hækkanir í Kauphöllinni í dag er gengi fasteignafélagsins hækkaði um 4% í yfir 400 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréf í Heimum hafa hækkað um tæp 17% síðastliðinn mánuð en fjárfestingafélag Baldvins Þorsteinssonar sem og breska sjóðastýringafélagið Redwheel hafa keypt í félaginu síðastliðna viku.
Í dag var greint frá því að Langisjór, sem á meðal annars leigufélagið Ölmu, Mata og sælgætisgerðina Freyju, hafi gert yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar eftir að hafa eignast 30% hlut í fasteignafélaginu í morgun.
Langisjór fer nú með 1.029.061.237 hluta, sem er um 11,7 milljarðar króna að markaðsvirði. Eignarhluturinn gefur Langasjó atkvæðisrétt upp á 30,06% í Eik en við það myndast tilboðsskylda samkvæmt lögum um yfirtökur.
Tilboðsverð mun hljóða upp á 11 krónur á hlut og mun greiðast með reiðufé.
Dagslokagengi Eikar var 11,1 króna en gengið fór hæst í 11,4 krónur í dag. Hlutabréfaverð Eikar hækkaði um 1% í yfir 300 milljón króna viðskiptum í dag en gengi fasteignafélagsins hefur hækkað um 12% síðastliðinn mánuð.
Hlutabréfaverð Reita hækkaði um rúm 2% í um 400 milljón króna viðskiptum í dag en gengi félagsins hefur einnig verið á ágætis skriði síðustu vikur og farið upp um tæp 8% síðastliðna tíu daga.
Stór utanþingsviðskipti með bréf Kviku
Mesta veltan var með bréf Kviku banka er gengi bankans fór upp um rúm 2% í 1,3 milljarða króna viðskiptum. Dagslokagengi Kviku var 15,95 krónur sem er um 5% hærra en fyrir mánuði síðan.
Stór utanþingsviðskipti með um 43 milljónir hluta í bankanum voru tilkynnt í morgun á genginu 15,5 krónur sem samsvarar um 666,5 milljóna króna viðskipti.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,2% í viðskiptum dagsins og var heildarvelta á markaði 3,9 milljarðar.