Fasteignakaupum í Grindavík fer senn að ljúka en nú hafa 952 umsóknir frá einstaklingum um kaup á íbúðarhúsnæði borist Fasteignafélaginu Þórkötlu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir jafnframt að frestur einstaklinga til að sækja um sölu á íbúðarhúsnæði í Grindavík renni út 31. mars

Gengið hefur verið frá kaupum á 938 eignum. Enn eru sjö umsóknir í vinnslu hjá félaginu og í sjö tilvikum hefur félagið hafnað kaupum á grundvelli þess að umsóknin uppfylli ekki skilyrði laga um undanþágu frá lögheimili.

„Horft til baka var þetta ótrúlegt verkefni og er það reyndar enn. Ýmsar ófyrirséðar áskoranir komu fram, eins og við er að búast í svona óvenjulegu verkefni, en eftir að uppkaup hófust í lok apríl hefur þetta gengið gríðarlega vel. Þegar mest lét vorum við að ganga frá 80 kaupsamningum á dag,“ segir Örn Viðar Skúlason framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Þórkötlu.

Á fyrstu sex vikunum eftir frágang samninga við lánastofnanir gekk félagið frá kaupum á 660 eignum eða 80% þeirra sem þá höfðu sótt um. Í lok júní hafði félagið svo gengið frá kaupum á 750 eignum.

Tilgangur Fasteignafélagsins Þórkötlu var að skapa Grindvíkingum svigrúm til búferlaflutninga vegna eldsumbrotanna sem enn standa yfir. Nú hafa því áherslur félagsins færst yfir á rekstur og viðhald eignanna.

„Fasteignafélagið Þórkatla hefur í því skyni ráðið þriggja manna teymi til að hafa eftirlit með eignum félagsins í Grindavík. Þá starfar fjöldi verktaka við viðgerðir og öryggisviðhald á húsunum. Teymi pípara hefur til dæmis farið í öll hús félagsins í bænum og yfirfarið hitakerfi, gert við bilanir og tappað af snjóbræðslum. Þá hafa rafvirkjar og smiðir komið að viðgerðum til að fyrirbyggja skemmdir á húsum,“ segir í tilkynningu.