Samtök iðnaðarins áætla að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði muni nema tæplega 39 milljörðum á næsta ári sem er nær 7% hækkun á milli ára. Í greiningu SI segir að hækkunin skýrist af hækkun fasteignamats.
Gangi sú áætlun eftir munu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verða 50% hærri á næsta ári að raunvirði en þeir voru fyrir tíu árum.
„Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa á síðustu árum aukist umfram vöxt verðmætasköpunar hagkerfisins. Hlutfall þeirra hefur farið úr 0,7% í 0,8% af landsframleiðslu á síðustu tíu árum. Skattlagningin hefur því orðið sífellt meira íþyngjandi fyrir atvinnurekendur hér á landi á síðustu árum,“ segir í greiningu SI.
Ríflega 39% af atvinnuhúsnæði í landinu er miðað við fasteignamat og segja 64% stjórnenda iðnfyrirtækja að það skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði séu lækkaðir.
Þá segir jafnframt að fasteignaskattar á íslensk fyrirtæki séu mjög háir í alþjóðlegum samanburði og séu til dæmis mun hærri á Íslandi en að jafnaði í ríkjum OECD. Hlutfall þessara skatta þar er tæplega 0,5% af landsframleiðslu miðað við 0,8% hér á landi.