Fasteignagjöld eru næst stærsti tekjustofn sveitarfélaga á eftir útsvarinu og samsvara 13-15% af heildartekjum sveitarfélaga.

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu mun hækka um 20,2% á næsta ári. Þar af mun fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækka um 23,6% en fasteignamat á atvinnuhúsnæði um 96%. Fyrirhuguð hækkun hefur leitt til umræðna um fasteignagjöld og hvernig þau eru innheimt.

Mörg sveitarfélög hafa tekið þá ákvörðun að lækka fasteignaskatta á næsta ári sem nemur hækkuninni. Þar má nefna Kópavogsbæ sem hefur ákveðið að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði úr 0,2% niður í 0,17%.

Skattarnir verða lægstir í Garðabæ og á Seltjarnarnesi, þar sem álagningarhlutfallið lækkar niður í 0,166%. Þá lækka skattarnir lítillega á milli ára í Mosfellsbæ, fara úr 0,203% niður í 0,195%.

Reykjavíkurborg verður með óbreytt álagningarhlutfall á íbúðarhúsnæði upp á 0,18% á næsta ári. Hafnarfjörður ætlar heldur ekki að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði og verður bæjarfélagið áfram með hæstu skattprósentuna, eða 0,246%. Þó munu vatns- og fráveitugjöld í Hafnarfirði lækka á komandi ári til að koma til móts við hærri fasteignagjöld.

Þegar litið er til fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði má sjá að Reykjavík og Hafnarfjörður verða með óbreytt hlutfall á næsta ári. Þá verður Reykjavíkurborg með hæsta álagningarhlutfallið á atvinnuhúsnæði, eða 1,6%, á meðan Hafnarfjörður verður með næst lægstu álagninguna, eða 1,4%. Seltjarnarnesbær verður með lægstu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlunum, eða 1,154%.

Lægsta útsvarið í Garðabæ og Mosó fer í hámarksútsvar

Útsvarið er stærsti tekjustofn sveitarfélaga. Það er innheimt af launatekjum einstaklinga ásamt tekjuskatti ríkisins. Samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52% en lægst 12,44%.

Að undanförnu hefur Reykjavíkurborg verið eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimt hefur hámarksútsvar. Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar er hins vegar áætlað að útsvarið hækki upp í hámark og verða því líklega tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með hámarksútsvar frá og með næsta ári.

Þó að meirihluti sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé með lægra útsvar en sem nemur löglegu hámarki, telst það algengt að innheimta hámarksútsvar þegar litið er til allra landshluta. Á þessu ári voru einungis 14 sveitarfélög af 68 talsins sem ekki innheimtu hámarksútsvar.

Garðabær verður með lægsta útsvarið af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun, eða 13,7%. Bæjarstjórn á Seltjarnarnesi hækkaði útsvarið síðla árs 2021 úr 13,7% í 14,09% og gerir ráð fyrir óbreyttu útsvari á næsta ári. Garðbæingar verða því áfram einir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með lægsta útsvarið eins og staðan er í dag. Þá verður áfram innheimt 14,48% útsvar í Kópavogi og Hafnarfirði á komandi ári.

Úttektina má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.