Fasteignaverð á nýjum íbúðum í 70 stærstu borgum Kína hefur lækkað um 1,24% miðað við sama tímabil í fyrra. Íbúðaverð á eldri íbúðum hefur lækkað enn meira, eða um 4,4% og er lækkunin sú mesta í níu ár.

Þetta kemur fram í gögnum sem kínverska hagstofan birti nú fyrir helgi.

Þessi langvarandi lækkun á húsnæðisverði í landinu er lýsandi dæmi um þær áskoranir sem yfirvöld í Kína glíma nú við. Ríkisstjórnin hefur tekið einhver skref til að reyna snúa þessari þróun við en hingað til hafa aðgerðirnar ekki borið mikinn árangur.

Li Qiang, næstæðsti meðlimur í fastanefnd stjórnmálanefndar kínverska kommúnistaflokksins, kallaði í síðustu viku eftir kröftugum aðgerðum til að endurheimta traust almennings á hagkerfinu. Ríkisbankar hafa þá reynt að örva fasteignamarkaðinn með því að lækka helstu útlánsvexti.

Sveitarstjórnir í Peking og Shanghai hafa einnig létt á takmörkunum þegar kemur að fasteignakaupum og hafa þúsundir byggingarverkefna fengið milljarða dala fjármögnun frá kínverska fjármálageiranum.

Í gegnum árin hafa fasteignakaup verið vinsæl fjárfesting fyrir almenning í Kína þar sem erfitt er að komast inn á hlutabréfamarkað. Fasteignamarkaðurinn hefur spilað lykilhlutverk í hagvexti kínverska efnahagsins alveg frá því hann byrjaði að opnast á áttunda áratugnum. Í dag samsvarar fasteignamarkaðurinn um 17-29% af allri þjóðarframleiðslu Kína.

Eftir að hafa reitt sig á þetta kerfi í mörg ár eru sveitarstjórnir í landinu nú stórskuldugar og á milli sín skulda þær í kringum 7 til 11 milljarða dala. Bankar hafa einnig tekið á sig högg eftir lánveitingar en kínversk fyrirtæki voru í meira en 100 milljarða dala vanskilum af erlendum skuldabréfum milli 2020 og 2023.

Kínverska ríkisstjórnin mun tilkynna vaxtarmarkmið þjóðarinnar fyrir árið 2024 á mikilvægum stjórnmálafundi í næsta mánuði. Búist er við því að stjórnvöld muni stefna á markmið sem aðeins minna en 5,2% vöxturinn sem náðist árið 2023, þó svo að hagfræðingar segi að sú tala sé jafnvel líka uppblásin.