Fasteignaverð í Svíþjóð lækkaði um 3% í október. Það hefur nú lækkað sjö mánuði í röð og um 14% síðan í mars, að því er kemur fram í grein hjá Bloomberg.
Þó að húsnæðismarkaðir í flestum ríkjum hafi kólnað að undanförnu vegna hærra vaxtastigs, hefur enn ekki komið til lækkana á flestum mörkuðum. Þó hefur íbúðaverð í Kanada lækkað um 10% og þá er spáð fyrir um allt að 20% lækkun í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Fastlega er gert ráð fyrir að sænski seðlabankinn ákveði að hækka stýrivexti um 75 punkta, upp í 2,25%, á fundi sínum á morgun. Tilkynnt verður um vaxtaákvörðunina á fimmtudaginn.
Bankinn hækkaði stýrivexti síðast um 100 punkta í september, en þeir stóðu í 0% fyrr á árinu.
Þá mælist 10,9% verðbólga í Svíþjóð og hefur hún ekki verið hærri í þrjá áratugi.