Fasteignaverð þyrfti að lækka um 28% til að hlutfall afborgunar og ráðstöfunartekna kæmist aftur í það jafnvægi sem það stóð í á árunum 2011 til 2020. Þetta kemur fram í aðsendum pistli Pálmars Gíslasonar sérfræðings í gagnagreiningu í fylgiritinu Fasteignamarkaður sem kemur út með Viðskiptablaðinu í fyrramálið.

Í ofangreindu dæmi er gert ráð fyrir að hinar tvær breytur jöfnunnar, ráðstöfunartekjur og vextir, haldist óbreyttar, en hækkun launa og/eða lækkun vaxta kæmi til móts við lækkunarþörf fasteignaverðs í ofangreindu sambandi.

Pálmar bendir hins vegar á að þegar hefur verið samið um óbreytt laun á þessu ári eftir afturvirkar hækkanir til 1. nóvember síðastliðins við velflesta launþega. Hann tekur þó dæmi af 7% launahækkun og óbreyttum stýrivöxtum, sem myndi þýða að fasteignaverð þyrfti aðeins að lækka um 22,8% til að ná áðurnefndu jafnvægi.

Pistlinum fylgir tafla sem útlistar nánar samspil þessara breytinga, en ólíklegt verður að teljast að stýrivextir verði lækkaðir að ráði á þessu ári í ljósi þess að Seðlabankinn spáir enn verðbólgu vel yfir efri vikmörkum markmiðs í lok þessa árs.

Því næst víkur Pálmar að föstum vöxtum óverðtryggðra lána, nánar tiltekið þeim hluta þeirra sem lántakendur festu á botni vaxtaþróunar síðustu ára haustið 2020, þegar hægt var að fá fasta óverðtryggða vexti til þriggja ára allt niður í rétt um 4%.

Þeir sem það gerðu standa frammi fyrir tvöföldun vaxtabyrðar með tilheyrandi hækkun greiðslubyrðar (vaxtagreiðslur eru bróðurpartur afborgunar í upphafi lánstíma, sér í lagi á óverðtryggðum lánum) þegar sá binditími rennur út í haust.

Pálmar spáði því eftirminnilega með samskonar rökum fyrir rétt um ári síðan að þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignamarkaði ætti verðið enn eftir að hækka þónokkuð að óbreyttu, og reyndist sannspár.