Aðdáendur tónlistarkonunnar Beyoncé keppast nú um að næla sér í miða fyrir komandi tónleikaferðalag hennar. Svo virðist þó að erfiðar gangi að finna kaupendur fyrir fatalínu hennar hjá Adidas.
Sala á vörum úr Ivy Park fatalínu Beyoncé hjá Adidas dróst saman um meira en helming á milli ára og nam tæplega 40 milljónum dala, eða um 5,6 milljörðum króna, í fyrra samkvæmt gögnum sem Wall Street Journal hefur undir höndum. Þýski íþróttavörurisinn átti von á að salan yrði í kringum 250 milljónir dala.
Samkvæmt því var salan á Adidas Ivy Park fatalínunni meira en 200 milljónum dala, eða meira en 28 milljörðum króna, undir áætlunum fyrirtækisins.
Tapa á samstarfinu
WSJ segir að Adidas hafi tapað peningum á fatalínunni í fyrra en Beyoncé fær um 20 milljónir dala, eða um 2,8 milljarða króna, í árlega þóknun. Samningur Adidas við tónlistarkonuna gildir út þetta ár. Stjórnendur Adidas hafa rætt um sín á milli að slíta samstarfinu eða bjóða tónlistarkonunni vinsælu nýjan samning með breyttum skilmálum.
Beyoncé byrjaði með Ivy Park fatalínuna árið 2016, þá í samstarfi við Philip Green sem átti um tíma Topshop. Tónlistarkonan eignaðist vörumerkið að fullu árið 2018. Ári síðar tilkynnti Adidas um samstarf við Beyoncé.
Þýski íþróttavörurisinn vildi með samstarfinu fá fjölbreyttara vöruúrval fyrir konur. Þá hafði samstarf Adidas við rapparann Kanye West, sem lauk í fyrra, reynst mjög arðbært.
Adidas hefur fært niður söluspá fyrir Ivy Park línuna fyrir árið 2023 úr 335 milljónum dala í 65 milljónir dala.