Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna (FDA) hefur stað­fest að um­sókn Al­vot­ech um markaðs­leyfi fyrir AVT02, sem lögð hefur verið fram að nýju, hafi verið tekin til af­greiðslu og er frestur eftir­litsins til að komast að niður­stöðu miðaður við 24. febrúar nk.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Alvot­ech en AVT02 er fyrir­huguð líf­tækni­lyfja­hlið­stæða í háum styrk með út­skipti­leika við Humira (adali­mu­mab).

Þann 28. júní var greint frá því að FDA myndi ekki af­greiða um­sókn Al­vot­ech að svo stöddu. Viðskiptablaðið fjallaði í vor ítarlega um umsóknarferli Alvotech hjá FDA og helstu vendingar frá skráningu íslenska líftæknilyfjafyrirtækisins á markað.

Í kjölfar ákvörðunar FDA í sumar seldi fjár­festinga­fé­lagið Aztiq, aðal­eig­andi Al­vot­ech, tæp­lega tuttugu prósenta eignar­hlut í sam­heita­lyfja­fyrir­tækinu Lotus. Nokkrum vikum síðar sölutryggði Aztiq, sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Wessman, 13 milljarða króna út­boð til hæfra fjár­festa á víkjandi skulda­bréfum með breyti­rétti.

„Stað­ráðin í að veita sjúk­lingum í Banda­ríkjunum að­gengi að AVT02“

Þá jók Al­vot­ech einnig sam­starf sitt við Teva Pharmaceuti­cals, banda­rískt dóttur­fé­lag Teva Pharmaceuti­cal Industries Ltd. en hlut­verk Teva í sam­starfinu væri meðal annars að að­stoða við væntan­lega út­tekt FDA á fram­leiðslu­að­stöðu Al­vot­ech.

Sam­kvæmt til­kynningu Al­vot­ech í morgun lítur FDA á málið eins og staðan er núna að um­sókn Alvotech veiti full­nægjandi svör við öllum at­huga­semdum stofnunarinnar í kjöl­far út­tektar á fram­leiðslu­að­stöðu Al­vot­ech í mars sl., með til­liti til þeirra við­bótar­upp­lýsinga sem Al­vot­ech lagði fram með um­sóknar­gögnunum.

„Við erum stað­ráðin í að veita sjúk­lingum í Banda­ríkjunum að­gengi að AVT02, enda er þörfin á hlið­stæðu með út­skipti­leika við Humira í háum styrk á­fram brýn og slíkur kostur stendur sjúk­lingum ekki til boða,“ er haft eftir Róberti Wess­man, stjórnar­for­manni og for­stjóra Al­vot­ech í til­kynningu.

„FDA hefur ekki gert at­huga­semdir við efni um­sóknar okkar um markaðs­leyfi aðrar en þær sem lúta að fram­leiðslu­að­stöðunni. Við bíðum nú eftir frekari til­mælum frá FDA varðandi mögu­lega tíma­setningu endur­út­tektar og teljum að hún geti farið fram innan þess frests sem eftir­litið hefur til að komast að niður­stöðu.“

Í Banda­ríkjunum kveða reglur á um að líf­tækni­lyfja­hlið­stæða þurfi að upp­fylla skil­yrði um út­skipti­leika, til þess að bjóða megi sjúk­lingum hlið­stæðuna án þess að læknirinn sem á­vísaði á frum­lyfið gefi út nýjan lyf­seðil. Sjúk­lingum í Banda­ríkjunum stendur enn ekki til boða líf­tækni­lyfja­hlið­stæða með út­skipt­leika við Humira í háum styrk.