La Dolce Vita ehf., sem er í eigu Baldurs Ingvarssonar staðarhaldara á Staðarfelli á Fellsströnd, hefur fest kaup á félagsheimilinu að Staðarfelli. Seljendur voru Dalabyggð, Kvenfélagið Hvöt og Ungmennafélagið Dögun.
„Félagsheimilið að Staðarfelli hefur verið miðpunktur og grundvöllur félagslífs á Fellsströndinni um áratugaskeið. Þar hefur ávallt ríkt góður andi og margar góðar minningar eru frá skemmtilegum stundum og góðu fólki. Kaupin fela meðal annars í sér að Ungmennafélaginu Dögun á Fellsströnd er heimiluð afnot af Félagsheimilinu að Staðarfelli til að halda þorrablót, kóræfingar, söngskemmtanir, félagsfundi og annað menningarstarf sveitarinnar hverju sinni í fullu samráði og samstarfi við nýjan eiganda,“ segir í fréttatilkynningu.
Samkvæmt tilkynningu hafa allir hlutaðeigendur átt náin og góð samskipti varðandi viðskiptin og eru einhuga um samvinnu og samstarf til framtíðar.
„Það er öllum í hag að uppbygging svæðisins gangi sem best og félagsheimilið sé sjálfbær eining í rekstri.“
„Uppbygging Staðarfells er langtíma sóknarverkefni sem þarfnast náinnar samvinnu og samstarfs við staðbundna verslun og þjónustu. Kaupin á félagsheimilinu styðja við það einstaka samfélag sem fyrir er á Fellsströnd. Fram undan eru gjöfulir tímar í endurgerð þessa fágæta og fallega staðar með góðu fólki sér við hlið,“ segir Baldur Ingvarsson eigandi Staðarfells.