Fjarþjálfun slf, félag einkaþjálfarans og fjölmiðlamannsins Egils Einarssonar, hagnaðist um 29 milljónir króna árið 2022 og greiddi átta milljónir í laun samkvæmt áætlun Viðskiptablaðsins. Skráð starfsemi félagsins er íþrótta og tómstundakennsla.

Félagið er efst á lista yfir þau samlags- og sameignarfélög á sviði annarrar heilsutengdrar starfsemi sem högnuðust mest árið 2022 samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins. Félagið var einnig efst á umræddum lista í úttekt Viðskiptablaðsins í fyrra.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti í síðustu viku.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.