Það lofaði góðu árið 2001 þegar stærstu landeigendur Danmerkur stofnuðu félag með það í huga að framleiða alls kyns vörur úr dönskum landbúnaði.
Félagið fékk heitið De 5 Gaarde en það dregur nafn sitt af þeim fimm landareignum sem stofnendur lögðu til.
Jóakim Danaprins lagði til landareignina Schackenborg á meðan Troels Holch Povlsen, stofnandi Bestseller-samstæðunnar, lagði til jarðirnar Gyllingnæs og Constantinsborg.
Danski lénsherrann Bendt Wedell lagði síðan til landareignirnar Frijsenborg og Wedellsborg og urðu því eignirnar í félaginu fimm.
De 5 Gaarde framleiddi og seldi allt frá súkkulaði, kjúklingi, sápum og kryddum yfir í bjór, vín og sódavatn.
Nú tuttugu og þremur árum síðar hefur félagið lagt upp laupana en samkvæmt Børsen sýnir nýjasti ársreikningur félagsins að starfsemin sé engin og verður félagið leyst upp á reikningsárinu 2024/25.
Starfsemin gekk vel framan af og skilaði félagið hóflegum hagnaði í meira en áratug eftir stofnun.
Árið 2017 skilaði félagið tapi í fyrsta sinn og tókst aldrei að snúa rekstrinum við. Samanlagt hefur félagið tapað 4,7 milljónum danskra króna.
Povlsen keypti vörumerkin
Samkvæmt Børsen byrjuðu eigendur félagsins að sýna félaginu minni áhuga um leið og tapreksturinn hófst en stærsta höggið kom árið 2019 þegar lénsherrann Bendt Wedell ákvað að selja sig úr félaginu og hefja kjúklingaframleiðslu undir eigin vörumerki, Frijsenborg, fremur en De 5 Gaarde.
Wedell er í dag einn stærsti kjúklingaframleiðandi Danmerkur.
Jóakim Danaprins seldi Schackenborg-kastala til styrktarsjóðs árið 2014 og losaði um meginþorra af hlutum sínum í De 5 Gaarde árið 2017.
Hann seldi restina af sínum hlutum til Troels Holch Povlsen í desember 2023.
Skömmu síðar var ákveðið að reka félagið í þrot er Povlsen keypti öll vörumerkin sem og slagorðið úr „Smagen af et yndigt land” sem lauslega þýðist sem „bragðið af yndislegu landi“.
Vörumerki félagsins eru nú í höndum félagsins Alma by G sem er í 55% eigu Povlsen og 45% eigu Ulmanen-fjölskyldunnar í Danmörku.