Álfheimur ehf., eignarhaldsfélag Höllu Hrundar Logadóttur forsetaframbjóðanda og Kristjáns Freys Kristjánssonar eiginmanns hennar, hagnaðist um 43,3 milljónir árið 2022.
Hjónin eiga félagið til helminga en Álfheimar er stærsti hluthafi íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins 50skills ehf. með um 30% hlut, samkvæmt síðasta ársreikningi sprotafyrirtækisins. Kristján er framkvæmdastjóri og einn stofnenda fyrirtækisins.
Eignir Álfheima voru bókfærðar á tæplega 59 milljónir í árslok 2022 en þar af var eignarhluturinn í 50skills um 55,4 miljónir.
50skills hefur þróað hugbúnaðarlausn sem hjálpar vinnuveitendum að virkja nýtt starfsfólk á vinnustaðnum. Fyrirtækið tryggði sér 360 milljóna króna fjármögnun frá vísisjóðnum Frumtaki III árið 2022. Vísisjóðurinn átti 20,4% hlut í félaginu í árslok 2022
Sem fyrr segir á félag þeirra hjóna um 30% hlut í 50skills ehf. en aðrir hluthafar félagsins eru meðal annars MurK Capital sem er 100% eigu Georgs Sigurbjarnar Ólafssonar, AJ103 ehf., sem er í 100% eigu Andra Janussonar, BFA ehf., sem er í 100% eigu Bjarka Fannars Atlasonar., SRH85 ehf., sem er i 100% eigu Sigurðar Rúnars Helgasonar.
Þá á félagið i2 ehf., sem er í eigu Þórlinds Kjartanssonar fyrrum aðstoðarmanns Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra um 1,6% hlut í fyrirtækinu.
Stekkjarhvammur ehf., sem er í jafnri eigu Ragnars Guðmundsson og Svanhildar Magnúsdóttur á einnig 1,6% hlut í fyrirtæki.