Félagið ATP Holdings ehf., sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Wessman, bauð 25 milljónir króna í Toppstöðina í Elliðaárdal. Þetta kemur fram í yfirliti yfir tilboð sem bárust í söluferli Reykjavíkurborgar.

Félagið ATP Holdings ehf., sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Wessman, bauð 25 milljónir króna í Toppstöðina í Elliðaárdal. Þetta kemur fram í yfirliti yfir tilboð sem bárust í söluferli Reykjavíkurborgar.

ATP Holdings ehf. er félag tengt Aztiq Pharma Partners S.a. r.l. sem er stærsti hluthafi íslenska líftæknilyfjafélagsins Alvotech. ATP Holdings ehf. hefur m.a. haldið utan um breytanleg skuldabréf Alvotech og sölutryggði félagið m.a. 13 milljarða króna skuldabréfaútboð Alvotech í júlí 2023.

Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech, á 92% hlut í ATP Holdings samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.

Þess má geta að í tilkynningu Reykjavíkurborgar er nafn félagsins gefið upp sem APT Holdings ehf. Í svari borgarinnar við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að tilboðinu hafi verið skilað inn undir nafninu APT Holdings en uppgefin kennitala stemmir hins vegar við ATP Holdings ehf. í fyrirtækjaskrá Skattsins.

Tilboðið 700 milljónum lægra en hjá Landsvirkjun

Landsvirkjun tilkynnti í gær að fyrirtækið hefði gert tilboð upp á 725 milljónir króna í Toppstöðina, með það í huga að starfrækja þar höfuðstöðvar sínar. Tilboðið gerir ráð fyrir að ásýnd Toppstöðvarinnar, sem var á árum áður í eigu Landsvirkjunar, verði færð nær upprunalegu útliti frá 1948.

Tilboð Landsvirkjunar felur annars vegar í sér kaup á Toppstöðinni sjálfri en einnig kaup á lóð undir bílastæði þar sem núverandi lóð býður ekki upp á stæði fyrir starfsfólk og gesti. Með áætluðum gatnagerðargjöldum þá er tilboðið um 725 milljónir króna.

Reykjavíkurborg tilkynnti í dag að alls hefðu fimm tilboð borist í Toppstöðina. Auk ofangreindra tilboða þá bauð Hilmar Ingimundarson 420 milljónir króna í húsið og Iða ehf., sem Björt Ólafsdóttir fyrrverandi ráðherra er í forsvari fyrir, bauð 287,5 milljónir. Því til viðbótar bauð Akstursíþróttafélag Íslands skipti á lóð.

Alls bárust því eftirfarandi fimm tilboð í Toppstöina:

  • Akstursíþróttafélag Íslands: Skipti á lóð
  • APT holdings ehf: 25 milljónir króna
  • Hilmar Ingimundarson: 420 milljónir króna
  • Iða ehf: 287,5 milljónir króna
  • Landsvirkjun: 725 milljónir króna

Toppstöðin er tæpir 6.500 fermetrar að stærð og er gildandi fasteignamat tæpar 775 milljónir króna.

Borgarráð heimilaði í júní síðastliðnum að hefja söluferli á Toppstöðinni og efnt var til samkeppni þar sem fleiri þættir en kaupverð skyldu hafa áhrif við mat á tilboðum.