Stjórn Félagsbústaða fól framkvæmdastjóra félagsins í síðasta mánuði að senda Velferðarráði Reykjavíkurborgar bréf þar sem kallað er eftir afstöðu ráðsins til 6,5% hækkunar leiguverðs umfram vísitölu sem gert var ráð fyrir við gerð síðustu fimm ára fjárhagsáætlunar félagsins.
„Stjórnin áréttar að án slíkrar hækkunar sé viðbúið að hægja muni enn frekar á vexti félagsins og uppbyggingu félagslegs húsnæðis á sama tíma og erfitt geti reynst að sinna viðhaldi á eignum félagsins,“ segir í fundargerð stjórnarfundar Félagsbústaða frá 11. september síðastliðnum.
Stjórn Félagsbústaða, dótturfélags Reykjavíkurborgar, segir að tiltæk gögn bendi til þess að leiguverð hjá Félagsbústöðum sé umtalsvert undir almennu leiguverði og að fyrirhuguð hækkun leiguverðs sé ekki þess eðlis að sá munur verði of lítill með tilliti til tilgangs félagsins og þessa félagslega hlutverks sem það gegnir á húsnæðismarkaði.
„Stjórnin bendir á að málið hefur verið til umfjöllunar í lengri tíma og mikilvægt að fá niðurstöðu sem allra fyrst.“
Í fjárhagsáætlun Félagsbústaða fyrir árin 2025-2029 kom fram að fyrirhugað sé að hækka leigu um verðlag á árinu 2025, en ekki var tilgreint nánar hversu mikil sú hækkun verði.
Kölluðu eftir hækkun sumarið 2023
Stjórn og stjórnendur Félagsbústaða lýstu yfir áhyggjum af fjárhagsstöðu félagsins í ársreikningi sem birtur var í mars síðastliðnum.
Þar sagði stjórnin langtímaáætlanir um rekstur og sjóðstreymi bera með sér að félagið muni ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbóta og meiriháttar viðhalds eins og sakir standa.
Stjórnendur Félagsbústaða óskuðu sumarið 2023 eftir því við velferðarráð að fá heimild til að hækka leiguverð um 1,1% umfram verðlag en sú tillaga hlaut ekki brautargengi.
Í kjölfar birtingar ársreikningsins sagði Haraldur Flosi Tryggvason, þáverandi stjórnarformaður Félagsbústaða, að hækkunarþörfin væri komin upp í 6,5%.