Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur lagt fram miðlunartillögu sem felst í því að félagsmenn Eflingar greiða atkvæði um sömu launahækkanir og samið var um við 18 félög Starfsgreinasambandsins (SGS). Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkissáttasemjara rétt í þessu.
Tillagan felur einnig í sér að allir meðlimir stéttarfélagsins fái afturvirkar launahækkanir frá 1. nóvember.
Aðalsteinn bendir á að allir félagsmenn Eflingar fái tækifæri til að greiða atkvæði um kjarasamninginn, ólíkt atkvæðagreiðslu Eflingar um verkföll sem beinast að Íslandshótelum.
Spurður að því hvort hann telji að félagsmenn Eflingar vilji fá umtalaðan kjarasamning á borðið segist Aðalsteinn ekki vita það.
„Ég veit það ekki. Ég held að ekkert okkar geti svarað þeirri spurningu, en félagsmenn Eflingar geta gert það með þessari kosningu.“
Leynileg og rafræn kosning
Kosningin verður leynileg og rafræn og segir Aðalsteinn útlit fyrir að hún verði haldin strax á mánudag og þriðjudag í næstu viku.
Hann segir skýrt að Efling og SA séu skyldug til að halda atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna.