Farsímafyrirtækið Vodafone á Íslandi, dótturfélag Sýnar, hefur sent tilkynningu til viðskiptavina sinna að kostnaður við símtöl og SMS frá Íslandi til Tyrklands og Sýrlands verði felldur niður fyrir febrúarmánuð.

„Heimurinn er harmi sleginn yfir þeim hörmungum sem að jarðskjálftinn hefur valdið í Tyrklandi og Sýrlandi,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og markaðsmála hjá Vodafone, í tilkynningu.

„Til að létta aðstandendum og hjálparliðum samskipti við ástvini og viðbragðsaðila hefur Vodafone ákveðið að fella niður gjöld á símtölum og SMS skilaboðum til Tyrklands og Sýrlands fyrir febrúar mánuð. Við vonum að þetta framlag hjálpi viðskiptavinum okkar að tengjast ástvinum sínum á þessum erfiðu tímum.“

Sesselía bætir við að vegna álags á samskiptainnviðum á hamfarasvæðinu er biðlað til viðskiptavina að senda SMS í stað þess að hringja svo að hjálparaðilar hafi greiðan aðgang að kerfinu.