Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að Reykjavíkurborg láti af fjármögnun og annarri þátttöku vegna hugsanlegs flugvallar í Hvassahrauni var felld á fundi borgarstjórnar í dag.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins studdu tillöguna en fulltrúar VG og Sósíalistaflokks Íslands sátu hjá. Tillagan var felld með atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.

Starfshópur hafði verið skipaður til að skoða hugsanlega lagningu flugvallar í Hvassahrauni og skilaði skýrslu sem kynnt var 1. október sl. Skýrslugerðin tók rúmlega fjögur ár eða tvöfalt lengri tíma en upphaflega var áætlað og var niðurstaðan sú að hópurinn útilokaði ekki flugvöll í Hvassahrauni og lagði til að ráðist yrði í frekari rannsóknir vegna málsins.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að búið væri að samþykkja reikninga fyrir rúma 181 milljón króna vegna vinnu stýrihóps um mögulega staðsetningu flugvallar í Hvassahrauni. Stærsti hluti kostnaðarins rann til Veðurstofu Íslands og Háskólans í Reykjavík.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir hversu lítið sé fjallað um eldsumbrot og eldgos í skýrslunni. Þá sé aðeins minnst á náttúruvá vegna jarðhræringa og eldgosa á þremur blaðsíðum í skýrslunni.

„Það er ekki skynsamlegt að Reykjavíkurborg ráðist í frekari kostnað vegna rannsókna og framkvæmda í tengslum við flugvallarhugmyndir í Hvassahrauni á næstu áratugum. Jarðvísindamenn hafa bent á að nýhafið eldsumbrotatímabil á Reykjanesskaga geti staðið í áratugi eða aldir og á því tímabili muni gjósa mun víðar á svæðinu en raunin hefur orðið frá 2021. Margir af virtustu jarðvísindamönnum landsins hafa varað við því að nýjum varaflugvelli verði fundinn staður í Hvassahrauni og telja að margir aðrir staðir utan Reykjanesskaga henti mun betur í því skyni,“ segir Kjartan.

Fjármálaráðherra hafi þá einnig lýst því yfir að hann sé ekki reiðubúinn að fjármagna uppbyggingu flugvallar í Hvassahrauni og hefur bent á að mikil óvissa ríki um öryggi á svæðinu.