Dirty Burgers & Ribs opnaði nýjan veitingastað við Fellsmúla 30 um síðustu helgi en hann kemur í staðinn fyrir veitingastaðinn sem var við Miklubraut þar til honum var lokað síðasta haust.

Birgir Helgason, framkvæmdastjóri Dirty Burgers & Ribs, segir að hugmyndin um nýju staðsetninguna hafi verið á teikniborðinu frá því síðasta sumar og að opnunin hafi þegar gengið mjög vel.

„Það er búið að vera vel sótt og við erum líka með þetta 50% afsláttartilboð sem verður út alla vikuna, en við erum bara að kynna nýju staðsetninguna og hafa gaman af lífinu.“

Staðurinn við Fellsmúla er hins vegar ekki sá fyrsti sem býður upp á hamborgara en Aktu Taktu var þar á undan og segir Birgir að það hafi vissulega einfaldað flutninginn. Dirty Burgers & Ribs hafi þó komið inn með sín eigin tæki. „Við eigum margt skylt með Aktu Taktu, en við erum meira ólíkir. Það er hægt að hamborga á marga vegu.“

Birgir segir það vera mikinn kost fyrir veitingastaðinn að lóðin við Fellsmúla sé stærri en sú sem var við Miklubraut og telur hann að hægt sé að gera meira á nýja staðnum. Staðsetningin sé þá líka þægilegri fyrir viðskiptavini.

„Þú þarft ekki lengur að taka einhverja U-beygju ef þú ert að koma úr miðbænum og svo er líka verið að opna Löður hérna og hraðhleðslustöðvar hjá Orkunni. Þannig þetta er bara sterkur leikur hjá okkur þegar til lengri tíma er litið.“

Dirty Burgers & Ribs hefur einnig fært sig út fyrir höfuðborgarsvæðið en það opnaði sinn fyrsta veitingastað í Borgarnesi þann 3. ágúst í fyrra. „Við erum náttúrulega bara að læra á það eins og annað. Þetta er nýtt fyrir okkur að vera fyrir utan Reykjavíkursvæðið en við erum mjög ánægðir með byrjunina.“

Aðspurður um erfiðleikana í veitingageiranum segir Birgir að hann hafi alltaf verið erfiður og sé sérstaklega krefjandi um þessar mundir. Hann líti þó frekar á það sem áskorun til að halda sér á tánum og að reksturinn sé yfir höfuð mjög skemmtilegur.

Fyrirtækið opnaði sinn fyrsta veitingastað árið 2014 og verður Dirty Burgers & Ribs því tíu ára í sumar. „Við höfum náttúrulega verið á hvolfi með að opna þennan stað en mér þykir ekkert ólíklegt að við gerum eitthvað í tilefni af stórafmælinu í ágúst. Það kemur bara í ljós,“ segir Birgir.