Eyrardalur ehf. hagnaðist um 1,6 milljarða króna í fyrra, en þar af komu tæpir 1,3 milljarðar frá dótturfélaginu ThorShip sem var selt með 860 milljóna króna bókfærðum söluhagnaði í fyrra eftir að hafa greitt móðurfélaginu 420 milljóna króna arð.

Kaupandinn var systurfélagið Cargow sem lýtur að miklu leyti sama eignarhaldi og hefur um árabil stundað samskonar rekstur í nokkuð nánu samstarfi við ThorShip.

Í ársreikningi Eyrardals fyrir síðasta ár er söluhagnaður tilgreindur 860 milljónir króna, en ekki sundurliðaður nánar. Heimildir blaðsins herma hins vegar að þar sé alfarið um bókfærðan hagnað vegna sölu ThorShip að ræða.

Lykiltölur ThorShip

Rekstrartekjur 2,6 milljarðar
Rekstrarhagnaður 107 milljónir
Greiddur arður 420 milljónir
Eigið fé 89 milljónir

Stilla strengina betur saman

Með sameiningunni segir Ragnar Jón Dennisson rekstrarstjóri ThorShip nú verið að þróa eitt félag í eina átt í stað tveggja síns í hvora áttina. „Okkur fannst þetta vera rökrétt skref á þessum tímapunkti. Með þessu getum við nýtt slagkraftinn í báðum kerfunum saman.“

Ragnar segir stjórnendur sjá mikil tækifæri í að halda áfram uppbyggingu almennrar fraktþjónustu, sem í upphafi var aðeins hliðarstarfsemi við álflutning fyrir álverin í Straumsvík og á Reyðarfirði. Ólíkt álinu – hvers magn stjórnast eðli máls samkvæmt alfarið af starfsemi álveranna og er nokkuð stöðugt – hafa almennu gámaflutningarnir vaxið jafnt og þétt og eru í dag farnir að slaga í átt að helmingi tekna sameinaðs félags.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.