Sprotafyrirtækið Brineworks sótti nýverið um 2 milljónir evra í fjármögnunarlotu sem samsvarar um 305 milljónum íslenskra króna. Brineworks hefur þróað svokallaðan rafgreini sem í einföldu máli framleiðir koltvísýring (CO2) og vetni (H2) beint úr sjó, sem hægt er að nýta í að búa til sjálfbært eldsneyti.
Guðfinnur Sveinsson, annar tveggja stofnenda, segir fjármögnunina gera félaginu kleift að halda áfram að þróa og framkvæma prófanir á rafgreininum en næstu skref séu síðan að skala tæknina upp.
Sænski vísisjóðurinn Pale blue dot leiddi fjármögnunina en Nucleus Capital, First Momentum og Founders Factory tóku einnig þátt. „Það voru fimm evrópskir vísisjóðir sem tóku þátt í þessari fjármögnunarlotu en aðalsjóðurinn Pale blue dot er með þekktari loftslagssjóðum í Evrópu,“ segir Guðfinnur.
Hann segir félagið ekki vera að einblína sérstaklega á kolefnisförgun þó að vissulega væri hægt að nota rafgreininn til að fanga koltvísýring úr sjónum og farga honum í samstarfi við fyrirtæki eins og Carbfix, en að hans mati á sá markaður enn frekar langt í land með að ná stöðugleika.
„Það sem við erum að einblína á er að lækka kostnaðinn við að búa til sjálfbært eldsneyti“ segir Guðfinnur. „Það sem er að gerast í heiminum er að við erum að reyna að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þar sem rafvæðing með batteríum er ekki fýsileg, s.s. í flugi og skipaflutningum, er lausnin rafeldsneyti.“
Þotueldsneyti, metan og dísill á það allt sameiginlegt að vera gert úr kolefni og vetni. Helstu aðferðir til að útbúa rafeldsneyti byrja með koltvísýring og vetni sem grunnhráefni, sem svo eru unnin áfram til þess að mynda eldsneyti sem hægt er að nota beint á t.a.m. flugvélar og skip.
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins um Brineworks. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild sinni hér.