Soffía Helgadóttir, forstöðumaður Feria, segir að bókanir fyrir síðasta ár hafi verið í takt við 2023. Hún segir að 2023 hafi verið einstaklega gott og að starfsmenn fyrirtækja og stofnana ferðist mögulega minna á viðburðarríkum árum.
Hagstofan birti í gær tölur um utanlandsferðir Íslendinga en þar kemur fram að íbúar landsins hafi farið í 1.185.000 ferðir á fyrri hluta árs 2024 samanborið við um 1.251.000 ferðir á sama tíma árið 2023. Fækkunin nemur því 5,2% milli ára.
„Við sjáum fleiri fyrirtæki auka við ferðalög, sum standa í stað og sáum einnig minnkun á ferðum í aðdraganda kosninga.“
Um var að ræða bæði vinnuferðir og ferðir í einkaerindum þar sem gist var að minnsta kosti eina nótt. Hagstofan segir að fækkunin milli 2023 og 2024 hafi skýrst fyrst og fremst af færri vinnuferðum.
„Ef ég fer að rýna í tölur hjá mér á síðasta ári þá var 2023 topp ár eftir Covid og þá var líka mikil ferðaþörf meðal fólks. Ástandið í þjóðfélaginu á síðasta ári var hins vegar aðeins öðruvísi. Þá voru fyrirtækin að glíma við stýrivaxtahækkanir og ég myndi segja að þá hafi einnig verið minna um ráðstefnuferðir,“ segir Soffía í samtali við Viðskiptablaðið.
Hún segist þá hafa séð breytt mynstur á slíkum ferðum. Áður fyrr hafi stærri hópar farið í ráðstefnuferðir og nýtt tækifærið til að njóta sín erlendis í leiðinni. Nú séu það hins vegar færri hópar sem fari aðeins á áríðandi ráðstefnur.
Mörg fyrirtæki kjósa hins vegar að bjóða upp á starfsmanna- og árshátíðarferðir.
Bestu og hagkvæmustu ferðirnar
Töluverð umræða hefur átt sér stað undanfarna daga í tengslum við þau sparnaðarráð sem nýkjörin ríkisstjórn óskaði eftir. Meðal þeirra sem sendu inn ráð var flugfélagið Play sem sagði að ríkið gæti sparað sér fjármuni með því að bóka ferðir með Play frekar en Icelandair.
Forstjóri Úrvals Útsýnar, Þórunn Reynisdóttir, sagði einnig í samtali við Viðskiptablaðið í gær að opinberar stofnanir ættu aðeins að notast við hlutlausar ferðaskrifstofur þegar verið er að bóka utanlandsferðir og að starfsmenn þeirra ættu ekki að geta safnað vildarpunktum í opinberum vinnuferðum.
„Það borgar sig aldrei að brjóta upp miðana í mörg fargjöld“
Soffía er sammála því að þessi umræða eigi rétt á sér en bendir á að allar ferðaskrifstofur á Íslandi, þar á meðal Feria sem er 100% í eigu Icelandair Group, séu hlutlausar og að það þurfi fyrst og fremst alltaf að hugsa um hag viðskiptavinarins.
„Við hjá Feria leitum alltaf hagkvæmustu leiða með okkar viðskiptavinum m.t.t. þeirra óska. Óskir viðskiptavina eru margvíslegar og dagsetningar ferðalaga geta breyst með litlum fyrirvara sem kalla á breytingar á bókunum.“
Hún segir að það geti skipt miklu máli að ferðast á svokölluðum samfelldum farseðlum sem eru ekki endilega í boði milli allra flugfélaga. Þá getur tími dags fyrir flug einnig skipt miklu máli þegar kemur að flugi, hóteli og öðrum kostnaði.
„Fyrir viðskiptavininn þá verðum við að hugsa um hag ferðalagsins og það borgar sig aldrei að brjóta upp miðana í mörg fargjöld,“ segir Soffía.