Ríkisstjórn Nýja Sjálands hefur ákveðið að hækka ferðamannaskattinn sem ferðamenn greiða við komu til landsins. Stjórnvöld vonast til að hækkunin muni tryggja að gestir leggi sitt af mörkum til opinberrar þjónustu í landinu.
Frá og með 1. október munu erlendir ferðamenn þurfa að greiða 100 NZ dali, eða tæpar 8.600 krónur. Þangað til þurfa ferðamenn að greiða 35 NZ dali, eða þrjú þúsund krónur.
Nýja Sjáland er frægt fyrir Maori-menningu og stórfenglegt landslag sem býður upp á jökla, fjöll, eldgos og stöðuvötn. Það hefur einnig verið vinsæll áfangastaður fyrir aðdáendur Lord of the Rings en myndirnar voru teknar upp á þeim slóðum.
Þjóðin kynnti gjaldið fyrst árið 2019 þar sem Nýja Sjáland glímdi við mikinn fjölda gesta sem hafði tilheyrandi áhrif á innviði, umhverfi og samfélag. Þegar heimsfaraldur skall á var landamærum Nýja Sjálands lokað í tvö og hálft ár og fengu erlendir gestir ekki að koma til landsins fyrr en í ágúst 2022.
Það eru þó ekki allir sáttir með hækkunina. Sjálfstæða ferðaþjónustustofnunin Tourism Industry Aotearoa segir að gjaldið muni reynast hindrun fyrir gesti og muni gera landið of dýrt til að heimsækja.
„Endurkoma ferðaþjónustunnar á Nýja Sjálandi er að dragast aftur úr á heimsvísu og þetta mun draga enn frekar úr samkeppnishæfni okkar,“ segir Recebba Ingram, framkvæmdastjóri samtakanna.