Nýsjálensk yfirvöld hafa ákveðið að aflétta reglugerðum um vegabréfsáritanir og munu nú leyfa ferðamönnum að sinna fjarvinnu meðan þeir eru í langtímaheimsókn í landinu. Með þessu vilja yfirvöld stuðla að meiri ferðaþjónustu í landinu.
Samkvæmt nýju reglunum geta ferðamenn nú stundað fjarvinnu hjá erlendum vinnuveitanda á meðan þeir eru í fríi í Nýja Sjálandi í allt að 90 daga.
Ríkisstjórnin segir að aðgerðin ætti að gera Nýja Sjáland að aðlaðandi áfangastað fyrir fólk sem starfar einungis í gegnum fjarvinnu, eða svokallaðir Digital Nomads. „Breytingin mun gera mörgum kleift að lengja dvöl sína sem mun leiða til þess að meira fé verði eytt í landinu,“ segir Erica Stanford, innflytjendaráðherra Nýja Sjálands.
Breytingarnar munu gilda um allar vegabréfsáritanir, þar á meðal fyrir ferðamenn og fólk sem heimsækir fjölskyldu, samstarfsaðila og forráðamenn með vegabréfsáritanir til lengri tíma.
Á vef BBC segir að ferðaþjónusta í Nýja Sjálandi skili tæplega 11 milljörðum dala í tekjur á ári. Önnur lönd, eins og Japan, Suður-Kórea, Brasilía, Spánn og Portúgal, hafa einnig tekið svipaðar ákvarðanir og bjóða nú upp á vegabréfsáritanir fyrir fólk sem stundar fjarvinnu.