Hagstofa Íslands birti gögn í síðustu viku um hvernig viðskiptahagkerfinu vegnaði á síðasta ári. Gögnin byggja á rekstrar- og efnahagsyfirliti sem unnið var upp úr skattframtölum rekstraraðila.

Þar koma fram hvernig hinar ýmsu stærðir litu út hjá mismunandi atvinnugreinum og hver heildarstærð viðskiptahagkerfisins var.

Viðskiptablaðið hefur tekið saman sjö atvinnugreinar og borið saman hvernig greinunum gekk á árinu, samanborið við árin á undan. Greinarnar eru ferðaþjónusta, tækni- og hugverkaiðnaður, byggingargeirinn, stóriðjan, sjávarútvegur, smásala og fasteignaviðskipti. Þar að auki er fluggeirinn skoðaður, sem er undir ferðaþjónustu.

Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu, án fjármála- og vátryggingastarfsemi, voru rúmlega 6.800 milljarðar króna árið 2023 samanborið við rúmlega 6.400 milljarða króna árið áður og tæplega 4.700 milljarða króna árið 2019.

Hagnaður viðskiptahagkerfisins, án fjármála- og vátryggingastarfsemi, nam 536 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 741 milljarða hagnað árið 2022.

Á síðastliðnum árum hefur ferðaþjónustan tekið við sér, og er tekjuvöxturinn mikill milli ára. Námu tekjur greinarinnar 930 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 767 milljarða árið áður og 418 milljarða árið 2021.

Heildarhagnaður ferðaþjónustunnar nam rúmlega 44 milljörðum króna á síðasta ári.
© vb.is (vb.is)

Heildarhagnaður ferðaþjónustunnar nam rúmlega 44 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 23,5 milljarða hagnað árið 2022. Hefur hagnaður greinarinnar ekki verið meiri síðan árið 2016, en greinin tapaði í heildina 89 milljörðum króna árið 2020 og 3 milljörðum króna árið 2021.

Þegar litið er sérstaklega til farþegaflutninga með flugi má sjá að sá hluti ferðaþjónustunnar skilaði fjögurra millljarða króna tapi á síðasta ári. Tapið nam sex milljörðum árið áður og 16 milljörðum árið 2021.

Nánar er fjallað um viðskiptahagkerfið á síðasta ári í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.