Skrifað hefur verið undir samrunasamning á Ferro Zink og Metal með fyrirvara um samþykki hluthafafunda og Samkeppniseftirlitsins. Með sameiningu fyrirtækjanna verður til eitt þjónustufyrirtæki með yfir 70 starfsmenn.
Í tilkynningu segir að ársvelta þessara tveggja félaga hafi samtals numið tæpa fimm milljarða króna í fyrra.
„Við sjáum mikinn hag í þessari sameiningu sem gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini þessara fyrirtækja á enn markvissari hátt því þessi fyrirtæki falla vel að hvort öðru. Við hlökkum til að nýta þau tækifæri sem framundan eru í samþættingu og um leið frekari vexti sameinaðs félags,“ segir Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Ferro Zink.
Metal ehf var stofnað árið 2004 og hefur fyrirtækið verið leiðandi í innflutningi og sölu á ryðfríu stáli, áli, plasti og tengdum vörum.
Ferro Zink (áður Sandblástur og Málmhúðun) var stofnað árið 1960 en félagið hefur um árabil verið með framleiðslu og zinkhúðun auk innflutnings á stáli og verslunarvörum.
„Eigendur félagsins sjá samruna við Ferro Zink sem spennandi kost fram á veginn þar sem áratuga reynsla starfsmanna Metal mun nýtast enn betur í þágu viðskiptavina sameinaðs félags,“ segir Karl Gunnar Eggertsson, stjórnarformaður Metal.