Samkeppniseftirlitið gerir grein fyrir ákvörðuninni í dag þar sem fram kemur að Festi hafi viðurkennt brot á skuldbindingum í eldri sátt í tengslum við samruna N1 og Festi auk brota á ákvæðum samkeppnislaga um upplýsingagjöf við rannsókn SKE í sama máli. Féllst Festi á að greiða 750 milljónir króna í sekt vegna þessa.

Að mati Samkeppniseftirlitsins eru brot Festi alvarleg en þau hafi farið gegn markmiðum og efni sáttar sem ætlað var að afstýra því að umræddur samruni myndi raska samkeppni.

Í tilkynningu er forsaga málsins rakin en Samkeppniseftirlitið lauk rannsókn á samruna Festi og N1 í lok júlí 2018. Taldi eftirlitið að samruninn myndi að óbreyttu raska samkeppni á dagvöru- og eldsneytismörkuðum. Festi hafi boðið fram ýmis skilyrði til að koma í veg fyrir samkeppnisleg vandamál og lauk málinu með undirritun sáttar.

Óháður kunnáttumaður, sérstakur eftirlitsaðili, hafði þó vakið athygli á mögulegum brotum og aðilar á markaði komið á framfæri kvörtunum og ábendingum sem leiddu til þess að Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn. Festi hafi að lokum óskað eftir sáttarviðræðum að eigin frumkvæði.

Um hafi verið að ræða brot á skilyrðum sem áttu að vernda og efla samkeppni á eldsneytismarkaði, brot á skilyrði sem ætlað var að vernda samkeppni á dagvörumarkaði, brot á skilyrði sem varðaði endurskoðun á samstarfi og samningi við keppninaut á dagvörumarkaði, og brot gegn skyldu Festi um hindra óháðan kunnáttumann í eftirliti sínu.

Jafnframt hafi Festi viðurkennt brot sem fólust í því að veita ekki tímanlega nauðsynleg og fullnægjandi gögn um mögulega innkomu á eldsneytismarkað og hins vegar í því að gera Samkeppniseftirlitinu ekki fullnægjandi grein fyrir sjónarmiðum félagsins við gerð sáttarinnar frá 30. júlí 2018.

Við ákvörðun sektar tók Samkeppniseftirlitið þó tillit til þess að Festi hafi að eigin frumkvæði óskað eftir sáttarviðræðum og viðurkennt brotin með skýrum hætti.

„Með þessu hefur Festi auðveldað og stytt rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem hefur jákvæð samkeppnisleg áhrif. Leiðir þetta til lægri sekta en ella.“