Festi, móðurfélag Krónunnar, N1, Lyfju og Elko, hefur sent frá sér jákvæða afkomuviðvörun. Félagið hefur hækkað afkomuspá sína fyrir árið 2025 um 800 milljónir króna, úr 14,4-14,8 milljörðum í 15,2-15,6 milljarða króna.

Festi segir afkomuspána hafa verið uppfærða í ljósi betri afkomu á öðrum ársfjórðungi og uppfærðrar spá stjórnenda fyrir seinni árshelming.

Samkvæmt drögum að uppgjöri fyrir annan ársfjórðung þá nemur EBITDA-hagnaður félagsins á fjórðungnum 3,9 milljörðum króna, samanborið við 2,9 milljarða króna árið áður.

Það samsvarar aukning upp á 1,0 milljarð króna eða um 0,6 milljarða án áhrifa Lyfju sem var ekki hluti af samstæðunni á sama fjórðungi í fyrra.

„Niðurstaðan er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en öll félög samstæðunnar eru að skila ágætri bætingu milli ára,“ segir í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar.

„Heimsóknum hefur fjölgað og er góð magnaukning í sölu á nánast öllum sviðum rekstrar. Þá er aukin samlegð og skilvirkni með nýjum tæknilausnum að skila bættum rekstri.“

Félagið áréttar að uppgjörið fyrir annan ársfjórðung sé enn í vinnslu og kunni að taka lítilsháttar breytingum fram að birtingardegi þann 29 júlí næstkomandi.