Festi hagnaðist um 4,1 milljarð króna árið 2022 og dróst hagnaðurinn saman um 18% á milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri félagsins.

Velta félagsins, sem er móðurfélag N1, Elko og Krónunnar, jókst um 22,5% á milli ára og nam 124 milljörðum króna á árinu 2022. Á sama tíma nam framlegð félagsins af vöru- og þjónustusölu 6,9 milljörðum og lækkaði á milli ára vegna hækkunar á hrávöruverðum á heimsmarkaði.

Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra Festi, segir í tilkynningu að mikil hækkun heimsmarkaðsverða á hrávörum hafi litað árið 2022. Hækkanirnar hafi leitt til aukinnar veltu og lækkunar á framlegðarstigi, sérstaklega í eldsneytishluta starfseminnar.

EBITDA félagsins nam 10 milljörðum króna á árinu. Þá kemur fram í ársreikningi að N1, Elko og Krónan hafi skilað sinni bestu EBITDA afkomu frá upphafi ef ekki er tekinn með söluhagnaður fasteigna hjá Krónunni á árinu 2021.

Eigið fé Festi í lok árs 2022 nam 34,5 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall 36,9% samanborið við 39,4% í lok árs 2021.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 923 milljón króna arður til hluthafa á árinu 2023, en Festi er að mestu í eigu lífeyrissjóða.