Heimilis­sparnaður heldur áfram að aukast á meðan eigna­sam­setning hluta­bréfa­sjóða sýnir skýrar breytingar í takt við markaðsaðstæður, sam­kvæmt nýrri greiningu AKKUR.

Greiningin byggir á upp­lýsingum sem hluta­bréfa­sjóðir birta mánaðar­lega um 10 stærstu eignir sínar.

Nýjustu gögn, frá lokum apríl 2025, sýna að Festi hefur mest vægi í saman­lögðu eigna­safni allra sjóðanna, alls 8,7%, og er á meðal tíu stærstu eigna í ellefu af tólf sjóðum.

Mest vægi Festi mælist hjá IS hluta­bréfa­sjóði (10,7%). Arion banki fylgir fast á eftir með 8,5% sam­tals vægi og er í topp tíu hjá níu sjóðum, þar á meðal með 9,3% vægi hjá IS sjóði.

Breytingar á eignasöfnum milli mánaða gefa innsýn í áherslu­breytingar sjóðs­stjóra. Helstu hreyfingar eru eftir­farandi:

  • Festi: Vægi jókst í sex sjóðum (þ.m.t. Akta Stokkur, IS Equ­us, Stefnir og Hekla) og minnkaði aðeins í tveimur. Festi er því áfram ein af helstu kjöl­festu­eignum sjóðanna.
  • Arion: Vægi jókst í fjórum sjóðum, helst hjá Stefni og IS-sjóðunum, en dróst lítil­lega saman í tveimur.
  • Ocu­lis: Vægi jókst í fjórum sjóðum og var mest hjá Akta Stokkur (8,3%). Fyrir­tækið hefur vakið at­hygli vegna sterkrar stöðu á heil­brigðistækni­markaði.
  • Öl­gerðin: Vægi minnkaði í sex sjóðum, en jókst í tveimur. Lægsta vægið mældist hjá Stefni Hluta­bréfum (3,1%).
  • Al­vot­ech: Vægi dróst saman í níu af tólf sjóðum. Minnkunin var mest í Akta Stokki, sem lækkaði vægi úr 7,7% í 6,3%.
  • Síminn: Vægi jókst hjá fjórum sjóðum og dróst saman í tveimur. Mestu breytingarnar urðu hjá Heklu.

Flestir sjóðanna eru með eigna­sam­setningu sem veru­lega víkur frá OMXI15-vísitölunni:

  • Festi og Ocu­lis eru með um­tals­vert hærra vægi í mörgum sjóðum en sem nemur vægi þeirra í vísitölunni (Festi +5,2 pró­sentu­stig hjá Stefni og Ocu­lis +6,3 pró­sentu­stig hjá Akta).
  • JBT Marel er með hlut­falls­lega minna vægi en í OMXI15 hjá flestum sjóðum.
  • Arion er í flestum sjóðum með vægi undir markaðsvísitölunni (+2,8 pró­sentu­stig), sem gæti bent til varkárni í áhættustýringu gagn­vart fjár­mála­geiranum.

Inn­flæði tak­markað en stöðugt

Þá birti Akkur einnig gögn um inn­lán heimila, sem halda áfram að aukast. Inn­lán heimila voru komin í 1.778 milljarða króna í lok apríl.

Hrein eign hluta­bréfa­sjóða var sam­tals 84,3 milljarðar, sem er 4,7% af inn­lánum heimilanna, svipuð hlut­föll og síðustu mánuði.

Þetta gefur til kynna að al­menningur sé enn tregur til að færa fé úr banka­innstæðum í áhættu­samari fjár­festingar.

Frá áramótum nemur hreint inn­flæði hluta­bréfa­sjóða sam­tals um 10,2 milljörðum króna, en líkt og AKKUR bendir á, er það tals­vert undir meðaltali síðustu ára.

Til saman­burðar nam inn­flæði fyrstu fjóra mánuði ársins 2021 rúm­lega 32 milljörðum. Þetta gæti endur­speglað óvissu um framtíðarþróun vaxta, gengis og fast­eigna­markaðar.