Iðnfyrirtækið Límtré Vírnet hagnaðist um 743 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 862 milljóna hagnað árið áður. Félagið selur vörur fyrir íslenskan byggingariðnað og sérhæfir sig í framleiðslu á stál- og álklæðningum, límtré og yleiningum úr íslenskri steinull.

Veltan dróst saman um 300 milljónir milli ára og nam tæplega 5,3 milljörðum króna í fyrra. Í skýrslu stjórnar kemur fram að lækkunina megi rekja til verðlækkana af hálfu félagsins.

Á aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða 400 milljónir króna í arð til hluthafa á árinu. Fjárfestingafélagið Stekkur á 78,72% hlut í félaginu, en eigandi Stekks er Kristinn Aðalsteinsson. Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri Stekks og stjórnarformaður Límtrés Vírnets. Þá er Stefán Árni Einarsson forstjóri félagsins.

Límtré Vírnet ehf

2023 2022
Rekstrartekjur 5.257 5.556
Eignir 3.718 3.570
Eigið fé 1.469 1.126
Hagnaður 743 862
Lykiltölur í milljónum króna.