Donald Trump Bandaríkjaforseti stefnir á að koma á fót nýju verkefni sem felur í sér að fjárfestar sem greiði fimm milljónir dala geti hlotið varanlegt dvalarleyfi í Bandaríkjunum, það sem í daglegu tali er kallað græna kortið. Sjálfur talaði Trump um gyllt kort í tengslum við hið nýja verkefni.
Að því er kemur fram í frétt Bloomberg greindi Trump frá málinu í gærkvöldi er hann undirritaði forsetatilskipanir á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. Reiknaði hann með að verkefnið færi í loftið eftir tvær vikur en nánari upplýsingar um verkefnið og innleiðingu þess liggja ekki fyrir að svo stöddu. Trump taldi sig ekki þurfa á samþykki þingsins að halda vegna verkefnisins.
Sambærilegt úrræði fyrir fjárfesta er þegar til staðar í Bandaríkjunum, EB-5 kerfið, sem tók gildi árið 1990 og var ætlað að blása lífi í bandaríska vinnumarkaðinn. Samkvæmt því kerfi fá fjárfestar, ásamt mökum sínum og börnum undir 21 árs aldri, varanlegt dvalarleyfi gegn því að fjárfesta í bandarískum fyrirtækjum og skapa störf fyrir tíu starfsmenn í fullu starfi þar í landi.
Howard Lutnick, viðskiptaráðherra Trumps, taldi að nýja verkefnið gæti leyst EB-5 kerfið af hólmi en gaf í skyn að fjármunirnir myndu renna beint í ríkissjóð, í stað þess að þeir færu í fjárfestingu í fyrirtækjum.
„Þeir munu geta greitt bandarísku ríkisstjórninni fimm milljónir dala til að sleppa við það að fara í gegnum matsferli, að sjálfsögðu, sem tryggir að þeir verði dásamlegir heimsklassa, alþjóðlegir ríkisborgarar,“ sagði Lutnick við blaðamenn og bætti við að fjárfestingar umræddra fjárfesta gætu nýst til að minnka halla ríkissjóðs.
Áform Trumps um hið svokallaða gull kort koma á sama tíma og forsetinn hefur ráðist í umfangsmiklar brottvísanir óskráðra borgara og aukið aðhald á landamærunum til suðurs.