Kínversku rafhlöðuframleiðendurnir CATL og BYD hafa náð tímamótum í þróun rafhlöðutækni með nýjum lausnum sem gera kleift að hlaða rafbíla á aðeins fimm mínútum sem svipar til sama tíma og það tekur að fylla bensínbíl.
Þessi bylting er hins vegar að mestu bundin við kínverskan markað og mun ekki nýtast bandarískum rafbílum, samkvæmt The Wall Street Journal.
Rafhlöðurnar, sem hlaðast á fimm mínútum og veita allt að 500 kílómetra drægni voru, kynntar nýverið af CATL, stærsta rafhlöðuframleiðanda heims á sýningu í Kína.
Nýja rafhlaðan tilheyrir svonefndri Shenxing-línu fyrirtækisins og byggir á járnfosfati (LFP)-tækni.
Hleðsluhraðinn jafnast á við það sem tekur að dæla bensíni á hefðbundinn bíl, og markar því verulegt framfaraskref í innviðum rafbíla.
Fyrirtækið BYD hefur einnig kynnt til sögunnar hraðhleðslutækni sem veitir allt að 400 kílómetra drægni á aðeins fimm mínútum.
BYD framleiðir bæði rafhlöður og rafbíla og keppir við Tesla um markaðshlutdeild í Kína.
Kínversk yfirburðastaða í rafbílatækni
Framfarirnar eru nýjustu dæmin um vaxandi yfirburði Kína í tækniþróun tengdri rafbílum.
Rafbílar eru í forgangi í stefnumótun forsetans Xi Jinping og hluti af yfirgripsmikilli stefnu sem felur í sér að gera Kína að tæknilegu stórveldi.
Þetta hefur skilað sér í miklum framförum í rafhlöðum, gervigreind og hálfleiðurum, oft með umtalsverðu forskoti gagnvart Bandaríkjunum.
CATL framleiðir nú meira en þriðjung af öllum rafhlöðum fyrir rafbíla á heimsvísu, þar á meðal fyrir kínversku útgáfuna af Tesla.
Nýjustu rafhlöður CATL eru hluti af Shenxing-línunni, sem byggir á járnfosfat-tækni (LFP) og bjóða allt að 500 mílna drægni án þess að yfirhitnun eigi sér stað við hraðhleðslu.
Takmarka aðgengi
Þrátt fyrir að tækni CATL og BYD veki athygli verður upptaka hennar takmörkuð til að byrja með.
Rafhlöðurnar krefjast sérstakra hraðhleðslustöðva sem enn eru í uppbyggingu og eru í fyrstu aðeins ætlaðar örfáum bílamódelum í Kína.
BYD hyggst reisa um 4.000 samhæfðar hleðslustöðvar innanlands, en ekkert bendir til að slík tækni verði flutt út í bráð.
Í Bandaríkjunum standa háir tollar í vegi fyrir útbreiðslu kínverskra rafbíla. Tollar á kínverska bíla námu 100% í tíð Biden og Trump hefur síðan hækkað þá enn frekar í 145%.
Það þýðir að kínverskir rafbílar – og tæknin sem í þeim býr – eru nær ósýnilegir á bandarískum vegum.
Ford reynir að ná forskoti með aðstoð CATL
Bandarísk yfirvöld hafa brugðist við með því að efla innlenda rafhlöðuframleiðslu.
Ford er nú að byggja verksmiðju í Bandaríkjunum þar sem framleiddar verða rafhlöður með tækniaðstoð frá CATL sem er merki um að jafnvel bandarísk fyrirtæki þurfi að leita til Kína til að fylgja þróuninni eftir.
Á meðan nýtur kínverskur rafbílamarkaður mikils innlendrar eftirspurnar.
Í mars voru 52% seldra fólksbíla í Kína rafmagns- eða tengiltvinnbílar, samkvæmt gögnum frá samtökum kínverskra bílaframleiðenda.
Ríkið styður við neyslu með niðurgreiðslum og lægri raforkuverði, og þar með nýtur tækni eins og hraðhleðsla skjótari upptöku.
Sérfræðingar vara þó við að tæknin verði ekki algild lausn, a.m.k. ekki enn.
Mike Dunne, bílaráðgjafi í Bandaríkjunum, segir það þurfi að hafa aðra hluti í huga í kringum þessa tækni.
„Þetta er spennandi tækni, en kostar meira og slitnar hraðar. Það þarf að sjá hvernig hún virkar í raunverulegum aðstæðum.“
Kína hefur þegar sett upp yfir 13 milljónir hleðslustöðva, bæði opinberar og einkareknar – langt fram úr þeim um 230 þúsund hleðslustöðum sem eru í boði í Bandaríkjunum. Með nýjustu hraðhleðslulausnum virðist Kína því vera að slíta enn meira forskot á Vesturlönd í kapphlaupinu um framtíð bílaflutninga.