Fimm var sagt upp hjá landeldisfyrirtækinu Geo Salmo í Þorlákshöfn fyrir helgi. Starfsmennirnir sem um ræðir höfðu að mestu leyti unnið að undirbúning framkvæmda og uppbyggingu viðskiptalíkans, en þeim verkefnum er lokið er í bili.

„Við erum búin að vera í þessum undirbúningsfasa sem er núna að mestu leyti lokið, það er allt klárt hjá okkur, öll hönnun komin og öll leyfi, allur grunnur undir módelið. Þá náttúrulega fækkar verkefnunum og kannski ekki síður að þau verða annars eðlis,“ segir Jens Þórðarson, forstjóri Geo Salmo, í samtali við Viðskiptablaðið.

Líkt og greint var frá fyrr í mánuðinum vinnur fyrirtækið að því að sækja a.m.k. 40 milljónir evra, eða um 6 milljarða króna, í nýtt hlutafé til að fjármagna fyrsta fasa framkvæmda.

„Það er í raun nokkuð óbreytt staða, við höldum áfram að vinna að uppbyggingu, við erum að byggja upp seiðastöð og annað, og á sama tíma erum við að safna meira hlutafé. Það er gengur ágætlega en það tekur tíma og svo sem ekki komin nein niðurstaða í það á þessum tímapunkti,“ segir Jens.

Stefnt er á að seiðastöðin fari í rekstur síðsumars en stóru framkvæmdirnar í Þorlákshöfn bíða þar til hlutafjáraukningunni er lokið.

„Við erum að finna hvaða tíma fjárfestar þurfa og eiga gott samtal við þá, fá heimsóknir og annað. Það tekur tíma að skipuleggja það allt saman þannig við erum svo sem ekki að miða við neina fasta tímasetningu, enda er það ekki það sem við erum að leggja mikla áherslu á. Þegar allir eru tilbúnir þá förum við af stað.“

Ráðgjafar Geo Salmo við fjármögnunina sem nú stendur yfir eru DNB Markets, Arion banki og Sparebank1 Markets. Þá hefur fyrirtækið fengið vilyrði fyrir lánssamning upp á ríflega hundrað milljónir evra, eða sem nemur hátt í 15 milljörðum króna, frá DNB, Arion banka og Eksfin.

Fyrirtækið lauk 13,4 milljóna evra fjármögnunarlotu, eða sem nemur tæplega 2 milljörðum króna, í árslok 2023. Íslenskir, norskir, sænskir og hollenskir fjárfestar tóku þátt í þeirri fjármögnun en hún gerði fyrirtækinu kleift að ljúka hönnun landeldisstöðvar í Þorlákshöfn, hefja jarðvinnu fyrir uppbyggingu hennar, sem og uppbyggingu seiðaeldisstöðvar félagsins á Laugum í Landsveit.

Jens sagði í viðtali við Viðskiptablaðið fyrr í mánuðinum að núverandi hluthafar hyggist taka þátt í yfirstandandi fjármögnunarlotu, auk þess sem aðrir fjárfestar, þar á meðal frá Noregi, hafa ákveðið að taka þátt.

Gert er ráð fyrir að fyrsti fasi landeldisstöðvar Geo Salmo framleiði allt að 7.800 tonn. Félagið hefur þegar tryggt sér land, lokið umhverfismati, tryggt sér langtíma orkusamning við Orku náttúrunnar og lokið öðrum undirbúningi.