Tekjur fjölmiðla árið 2023 lækkuðu um 4% samkvæmt tölum Hagstofunnar en lækkunina má alfarið rekja til samdráttar í auglýsingatekjum sem lækkuðu um 12% á milli ára. Á sama tíma jukust tekjur af notendum aðeins um 1,6%.

Stærstan hluta samdráttar í tekjum fjölmiðla er að rekja til þverrandi tekna dag- og vikublaða en tekjur þeirra minnkuðu um tæpan fjórðung á milli ára reiknað á föstu verði.

Þá segir að stærstur hluti tekna fjölmiðla sé fenginn frá notendum, eða um 62%, á móti 38% af auglýsingum eða 18,7 milljarðar króna í notendatekjur á móti 11,4 milljörðum í auglýsingatekjur.

„Hlutdeild Ríkisútvarpsins í tekjum fjölmiðla jókst lítillega á milli ára, fór úr 26% í 27%, en á sama tíma jókst auglýsingahlutdeild þess úr 20% í 22%. Fimm stærstu aðilar á fjölmiðlamarkaði tóku til sín 87% af samanlögðum tekjum fjölmiðla árið 2023,“ segir í greiningu.

Ástæðu samdráttar auglýsingatekna fjölmiðla má annars vegar rekja til útstreymis auglýsingafjár til erlendra aðila, t.d. samfélagsmiðla, og hins vegar til tilkomu nýrra miðlunarleiða svo sem streymisveitna. Á hinn bóginn hafa tekjur fjölmiðla af notendum aukist um 16% frá 2010.