Skyggnir Eignarhaldsfélag, áður Origo, réðst í fjölmargar fjárfestingar á sviði hugbúnaðarlausna á síðasta ári. Til að mynda keypti fyrirtækið 40% hlut í félaginu Advise, sem þróar gagna- og skýrslulausnir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, og fjárfesti í hugbúnaðarfyrirtækinu dala.care, sem þróar lausnir fyrir velferðarmarkað.
Eignasafn Skyggnis samanstendur af fimmtán fyrirtækjum á sviði upplýsingatækni. Þar má nefna 100% hlut í Origo, Ofar, Syndis, Tölvutek, Eldhafi, 98,33% hlut í Helix Health og 62,5% hlut í Unimaze.
Bakkavararbræður með 7,8% hlut
Framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks var stærsti hluthafi Origo í lok síðasta árs, með 65,5% hlut. Sjóðurinn kom fyrst inn í hluthafahópinn í desember 2022 þegar yfirtökutilboð barst frá sjóðnum og vorið 2023 var Origo afskráð úr Kauphöllinni.
Aðrir hluthafar fóru með innan við 10% hlut í lok árs 2024, en hlutafé skiptist alls á 365 hluthafa. Birta lífeyrissjóður fer með 6,4% hlut og tryggingarfélagið Sjóvá-Almennar tryggingar á 3,6% hlut.
Bakkavararbræður og Sigurður Valtýsson eiga þá samtals 12,5% hlut í Skyggni. Fjárfestingarfélagið Pekron, í eigu Ágústs Guðmundssonar, stofnanda og eins aðaleiganda Bakkavarar, og fjölskyldu, á 4,8% hlut. Félagið Frigus, í eigu Lýðs Guðmundssonar, á 3% hlut. Loks á Svalt, félag í eigu Sigurðar Valtýssonar, 4,7% hlut í Skyggni.
Origo og Moodup sameina krafta sína
Skyggnir keypti nýlega allt hlutafé íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Moodup, sem þróar lausnir á sviði starfsánægjumælinga.
Moodup hjálpar vinnustöðum að auka starfsánægju með mismunandi tegundum mannauðsmælinga, púlsmælingum, sérsniðnum könnunum og stjórnendamötum.
Moodup, sem var stofnað árið 2021 af Birni Brynjúlfi Björnssyni, núverandi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, hefur vaxið hratt á skömmum tíma og í dag nota margir af stærstu vinnustöðum landsins Moodup til að fylgjast með og auka ánægju starfsfólks.
Í tilkynningu um kaupin sagði Skyggnir að þau opni fyrir ný tækifæri til að auka samþættingu Moodup við lausnir Origo í mannauðstækni. Origo þrói m.a. Kjarna mannauðs- og launakerfi, sem gerir fyrirtækjum kleift að halda utan um öll mannauðsmálin sín á einum stað og Rúnu launavakt, sem eykur gagnsæi og samræmi í launamálum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.