Jóhann Páll Jóhannsson, núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur sagst munu leggja framhjá þingsályktunartillögu í haust sem felur í sér fimmta áfanga rammaáætlunar en hann hefur boðað breytingar á ferlinu, sem hefur verið harðlega gagnrýnt.
Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, segir að vandinn liggi meðal annars í lögum sem gera ekki ráð fyrir að tekið sé tillit til mikilvægra þátta.
„Fram til þessa hefur virðist ferli rammaáætlunar ekki hafa tekið til greina hættu á orkuskorti á Íslandi né þau háleitu markmið sem hér hafa verið sett um kolefnishlutleysi og orkuskipti. Nýlega hefur ráðherra þó tilkynnt að þar muni verða breyting á með nýjum lögum um stefnu um öflun raforku sem leggja á fram á fjögurra ára fresti,“ segir Finnur.
Stjórnvöld virðast ætla að halda í sama ferli, með nokkrum breytingum, en Samorka er meðal þeirra sem hafa kallað eftir því að rammaáætlun verði lögð niður.
„Að 14 árum liðnum og aðeins þremur áföngum rammaáætlunar lokið er reynslan af þessu ferli ekki jákvæð, og jafnvel skaðleg íslensku atvinnulífi. Sú staða sem við erum komin í varðandi orkuframboðið skrifast að miklu leyti á rammaáætlun. Á sama tíma hefur ekki verið sátt um þá örfáu virkjunarkosti sem hafa komist í orkunýtingarflokk, þó að yfirlýst markmið rammaáætlunar hafi verið að skapa sátt um orkuöflun á Íslandi. Miklu betur færi á því að hafa almennt ferli, skýrt markað í lögum þar sem tekið hefði verið tillit til þeirra fjölmörgu þátta sem hafa sætt gagnrýni.“
Alþingi afgreiddi 3. áfanga rammaáætlunar um mitt ár 2022 en afgreiðslan hafði tafist um sjö ár, m.a. vegna stjórnarslita.
Verkefnisstjórn 4. áfanga tók til starfa árið 2017 en skipunartíma hans lauk áður en 3. áfangi hafði verið samþykktur og gekk vinna 4. áfanga því til 5. áfanga. Skipunartími verkefnisstjórnar 5. áfanga rennur út í apríl 2025 en verkefnisstjórnin hefur þegar lagt fram tillögu að flokkun fimm virkjunarkosta, þar af eins í jarðvarma og fjögurra í vatnsafli, auk tillögu um flokkun 10 vindorkukosta.
Allir vindorkukostirnir sem teknir voru fyrir að þessu sinni voru settir í bið en ein vatnsaflsvirkjun og þrjár jarðvarmavirkjanir fóru í nýtingarflokk. Einn jarðvarmakostur var settur í verndarflokk. Ráðherra hefur sagst munu leggja framhjá þingsályktunartillögu í haust sem felur í sér næsta áfanga rammaáætlunar.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.