Finnbogi Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Icelandic Group, hefur tekið við sem forstjóri fisksölu- og framleiðslufyrirtækisins Alliance Foods Company í Dúbaí.
Í færslu á Linkedin segist Finnbogi hafa tekið við stöðunni fyrir nokkru síðan. Samkvæmt Linkedin-reikningnum hans hefur hann gegnt stöðunni frá því í september 2023.
Alliance Foods, sem var stofnað árið 1999, er dótturfélag International Holding Company í Abú Dabí. Fyrirtækið selur ferskar og frosnar sjávarafurðir í Miðausturlöndum undir vörumerkinu Asmak.
Finnbogi starfaði sem forstjóri Icelandic Group á árunum 2006-2011 en fyrirtækið var með starfsemi í 30 löndum þegar mest lét. Eftir rekstrarerfiðleika og fjárhagsvandræði eignaðist Framtakssjóður Íslands félagið árið 2010 sem seldi fyrirtækið í kjölfarið í hlutum.
Finnbogi tók í kjölfarið við sem forstjóri Pickenpack Europe, sem hafði áður verið hluti af starfsemi Icelandic Group á meginlandi Evrópu. Eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota árið 2016 stofnaði Finnbogi ráðgjafarfyrirtækið FAB Consulting sem sérhæfir sig í sjávarútvegi, að því er segir í frétt á vef Intrafish.