Finnur Árnason, Guðrún Þorgeirsdóttir og Ari Daníelsson hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Íslandsbanka en stjórnarkjör fer fram á hluthafafundi bankans á föstudaginn 28. júlí. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar sem birt var fyrir skemmstu.

Stjórnin boðaði til hluthafafundarins að beiðni Bankasýslunnar í kjölfar mikillar gagnrýni vegna þeirra upplýsinga um framkvæmd á sölu á 22,5% eignarhlut í bankanum í mars 2022 sem komu fram í sátt bankans við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.

Eftir birtingu sáttarinnar létu Birna Einarsdóttir bankastjóri, Ás­mundur Tryggva­son, fram­kvæmda­stjóri á sviði fyrir­tækja og fjár­festa, og Atli Rafn Björns­son, yfir­maður fyrir­tækja­ráð­gjafar, öll af störfum. Nú liggur einnig fyrir að þrír stjórnarmenn, þar á meðal formaður og varaformaður stjórnar, hafi ákveðið að stíga til hliðar.

Linda, Stefán og Haukur Örn tilnefnd

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka leggur til að Linda Jónsdóttir og Stefán Pétursson verði kjörin ný í stjórnina og valnefnd Bankasýslu ríkisins hefur tilnefnt Hauk Örn Birgisson. Þá leggur tilnefningarnefndin til að Linda verði kjörin stjórnarformaður bankans.

Stjórn Bankasýslunnar tilnefnir því eftirfarandi þrjá einstaklinga í stjórn bankans;

  • Anna Þórðardóttir, sitjandi stjórnarmaður
  • Agnar Tómas Möller, sitjandi stjórnarmaður
  • Haukur Örn Birgisson

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka leggur til að auk þeirra sem stjórn Bankasýslan tilnefndi, verði eftirtaldir einstaklingar kjörnir í stjórn bankans:

  • Frosti Ólafsson, sitjandi stjórnarmaður
  • Valgerður Skúladóttir, sitjandi stjórnarmaður
  • Linda Jónsdóttir
  • Stefán Pétursson

Haukur Örn Birgisson hefur undanfarna tvo áratugi starfað sem lögmaður, þar af sem sjálfstætt starfandi lögmaður í 15 ár. Hann hefur verið hæstaréttarlögmaður frá 2011. Hann hefur stýrt rekstri Íslensku lögfræðistofunnar, sem eigandi og framkvæmdastjóri, frá stofnun lögfræðistofunnar árið 2008

Linda Jónsdóttir er framkvæmdastjóri rekstrar (e. Chief Operating Officer) hjá Marel, en var áður fjármálastjóri fyrirtækisins frá 2014 -2022 og forstöðumaður fjárstýringar, fjármögnunar og fjárfestatengsla frá 2009-2014.

Stefán Pétursson er fjármálastjóri lyfjaþróunarfyrirtækisins EpiEndo Pharmaceuticals. Stefán starfaði sem fjármálastjóri Arion banka á árunum 2010-2021 og þar áður var hann hjá Landsvirkjun árin 1992-2010, sem yfirmaður fjármögnunar, deildarstjóri fjármáladeildar og fjármálastjóri síðustu átta árin.

Valnefnd Bankasýslunnar og tilnefningarnefnd Íslandsbanka hafa tilnefnt Hauk Örn Birgisson, Lindu Jónsdóttur og Stefán Pétursson í stjórn Íslandsbanka.

Flestir vildu breytingar

Í skýrslu tilnefningarnefndar segir að mikill áhugi hafi verið meðal stærstu hluthafa bankans að funda með nefndinni og voru haldnir tíu fundir með hluthöfum.

„Af fundum nefndarinnar með hluthöfum er ljóst að hluthöfum þykir ástæða til að endurnýja umboð stjórnar og í flestum tilvikum er vilji til að gera breytingar á stjórn. Voru hluthafar ekki á einu máli um það í hversu miklar breytingar á stjórn væri rétt að ráðast á þessum tímapunkti og vógust þar á annars vegar krafan um breytingar og hins vegar sjónarmið um stöðugleika og samfellu í stjórn, að mikilvæg þekking og reynsla innan stjórnarinnar tapist ekki.“

Á aðalfundi Íslandsbanka í mars voru Helga Valfells, Tómas Már Sigurðsson og Finnur Árnason skipuð í tilnefningarnefnd bankans. Finnur Árnason tók ekki þátt í störfum nefndarinnar í aðdraganda komandi hluthafafundar.

Jafnframt gat Tómas Már Sigurðsson ekki tekið þátt í starfi nefndarinnar á þessum tíma og sagði sig úr nefndinni. Stjórn skipaði Hilmar Garðar Hjaltason í nefndina á fundi sínum 5. júlí síðastliðinn.

Tilnefningarnefnd tekur fram að störf hennar og skilafrestur umsókna til hennar takmarki ekki rétt frambjóðenda til að skila inn framboðum til stjórnar bankans áður en almennur framboðsfrestur rennur út, sem er kl. 16 þann 23. júlí.