Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir óskiljanlegt að íslenskum fyrirtækjum sé bannað að veita sömu þjónustu og erlendum fyrirtækjum er heimilt hér á landi, og vísar þar í netverslun með áfengi.

„Viljum við raunverulega ýta viðskiptunum til útlanda? Viljum við ýta skatttekjum og störfum [frá okkur],“ segir Finnur í samtalsþætti SVÞ fyrir kosningar þar sem hann var gestur ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, oddvita Flokks fólksins í Reykjavík norður.

Ragnar Þór var spurður hvort hann myndi beita sér fyrir því að tryggja stöðu verslunar og þjónustu. Hann svaraði því að Flokkur fólksins geri þá kröfu varðandi sölu áfengis að farið sé að lögum í þeim efnum. Finnur svaraði um hæl og sagði alla sammála um að það þurfi að fara að lögum og bætti við að „það er farið að lögum“.

„Það eru bara búnir til hringir sem þarf að hoppa í gegnum. Það er verið að flækja hlutina um of,“ sagði Finnur.

Ragnar sagði að það væru vissulega einhverjar smugur í löggjöfinni sem opni á þessa starfsemi erlendra aðila sem hann telur að þurfi að girða fyrir. Ólöf Skaptadóttir, sem stýrði umræðum, skaut þá inn í og benti á að umrædd smuga stafi af EES-samningnum.

„Ég er þeirrar skoðunar út frá lýðheilsusjónarmiðum að þetta eigi að vera í höndum ÁTVR og mun beita mér fyrir því að svo verði áfram,“ sagði Ragnar. „Þið [hjá Högum] hafið fengið gagnrýni frá til dæmis stórum eigendum í Högum, lífeyrissjóðum sem eru mjög stórir [hluthafar]. Ég tek fyllilega undir þá gagnrýni.“

Misskilningur að ÁTVR sé trygging fyrir lýðheilsu

Finnur telur að það sé misskilningur að ríkisrekstur á áfengissölu í gegnum ÁTVR sé einhver trygging fyrir lýðheilsu.

„Á þeim tíma sem einkarekstur eða einokun ríkisins var heimiluð, þá byggði það á einhverjum sjónarmiðum um að hefta aðgengi. Það hefur ekki gengið sérstaklega vel vegna þess að aðgengi að áfengi er eiginlega orðið bara fullkomið hérna á Íslandi.“

Hann bendir á að ÁTVR sé með 58 útsölustaði. Auk þess séu útgefin vínveitingarleyfi hátt í 2 þúsund, fjöldi lítilla brugghúsa selji beint til neytenda í smásölu, og neytendur geti nú verslað við hundruð eða jafnvel þúsundir netverslana.

Þrátt fyrir að aðgengi að áfengi sé greitt velti rekstrarleyfi fyrir sölu áfengis á netinu hér á landi á ríkisfangi vefverslananna. „Ef það er íslenskt þá mega þær ekki þjóna mér og Ragnari, það er bara svoleiðis. Það skýtur náttúrulega skökku við.“

„Aðallýðheilsumálið er að við seljum ekki börnum áfengi. Það hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá ríkisversluninni. Í þeirri netverslun sem við höfum sett upp er enginn möguleiki að þar sé börnum selt áfengi,“ sagði Finnur og bætti við að tryggt sé að viðskiptavinir hafi náð 20 ára aldri með rafrænum skilríkjum.

Finnur virtist einnig svara gagnrýni ákveðinna lífeyrissjóða í hópi stærstu hluthafa Haga sem hafa lýst yfir áhyggjum um nýja vefverslun Hagkaups með áfengi.

„Þetta er ákveðinn tvískinnungur í allri umræðu um lýðheilsu vegna þess að sömu aðilar og gera athugasemdir við netverslun [með áfengi], þar sem farið er fullkomnlega eftir öllum reglum, eru líka að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru að búa til áfengi og hafa það bara að meginmarkmiði. Ég skil þetta ekki alveg, þetta er umræða á villigötum.“

Hvað varðar lýðheilsuáherslur í verslunarrekstri almennt hvert sem litið er til í heiminum, þá sagði Finnur það heyra til undantekninga að ekki séu seldar vörur sem eru í einhverjum skilningi óhollar, hvort sem það séu sykraðar, feitar eða reyktar vörur. Stefna Haga sé að bjóða upp á valkosti sem óumdeilanlega teljast hollir og viðskiptavinir hafi þá val um hvernig þeir haga sinni neyslu.