Stærstu streymisveiturnar áttu góðu gengi að fagna í heimsfaraldrinum þegar fólk varði stórum hluta af frítíma sínum heima hjá sér, og var mikill vöxtur á áskrifendum og miklar væntingar á markaðnum um enn frekari vöxt.
Fjöldi nýrra áskrifenda Disney+ náði hámarki þegar líða tók á árið 2020, en streymisveitan var stofnuð síðla árs 2019.
Nærri 24 milljónir bættust við sem áskrifendur Disney+ á síðasta ársfjórðungi rekstrarársins 2020, sem náði til mánaðanna júlí, ágúst og september 2020. Sömu sögu er að segja af Netflix, en fjöldi nýrra áskrifenda streymisveitunnar toppaði á fyrsta ársfjórðungi 2020.
Með rénun faraldursins dróst vöxturinn hratt saman og á árinu 2022 fór áskrifendum Netflix og Disney+ að fækka. Í kjölfar þess tilkynnti Netflix, sem hefur skilað jákvæðri afkomu í talsverðan tíma, aðgerðir til að fjölga áskrifendum, sem fólu m.a. í sér herferð gegn samnýtingu lykilorða og nýjan ódýrari áskriftarflokk með auglýsingum.
Nánar er fjallað um streymisveitumarkaðinn í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.