Fiskeldisfyrirtækið Háafell stundar eldi í Ísafjarðardjúpi. Félagið er að fullu í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. (HG), stærsta sjávarútvegsfyrirtækis Vestfjarða, sem rekur togara, vinnsluhús og hefur verið burðarás í samfélaginu á Vestfjörðum um áratugaskeið.
HG/Háafell hefur verið með fiskeldisstarfsemi frá árinu 2001, fyrst í þorski. Í upphafi árs 2016 var síðasta eldisþorskinum slátrað en í lok sama árs hófst slátrun á fyrsta regnbogasilungnum.
Árið 2021 fékk félagið leyfi fyrir laxeldi, tíu árum eftir að það sótti um leyfið. Vorið 2022 fór fyrsti laxinn út í sjókvíar.
„Þetta var langt ferli. Við fórum í gegnum tvö umhverfismöt og alls konar aðra ferla áður en leyfið var loks veitt árið 2021. Þegar við lítum í baksýnisspegilinn sjáum við að vandað hefur verið til verka. Hverjum steini hefur verið velt og aðstæður rannsakaðar í þaula.
Í kjölfarið hefur þetta almennt séð gengið vel og erum við að fara setja fjórðu kynslóðina af laxi út í sumar,“ segir Gauti Geirsson framkvæmdastjóri Háafells og bætir við að þó að ferlið hafi verið langt og strangt sé það að einhverju leyti eðlilegt.
„Við störfum í viðkvæmu umhverfi og að mínu mati er eðlilegt að það sé krefjandi ferli á bak við að fá rekstrarleyfi. Þú átt að þurfa að leggja mikið á þig og undirbúa málin vel. Að sama skapi eiga fyrirtækin líka að geta vaxið og þróast og það á við um okkur eins og aðra.“
Félag í uppbyggingarfasa
Háafell hefur í dag leyfi til að ala 6.800 tonn af laxi og regnbogasilungi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi og rekur einnig seiðaeldisstöð á Nauteyri, þar sem fyrirtækið hefur heimild til að ala 800 tonn af laxi og regnbogasilungi.
Samhliða uppbyggingu í laxeldi hefur félagið ráðist í miklar fjárfestingar í seiðeldinu á Nauteyri og er nú að stækka stöðina og fjölga seiðum til að stytta viðverutíma í sjó.
„Við erum enn í uppbyggingarfasa og verðum þar næstu tvö árin til viðbótar þegar við nálgumst það að fullnýta leyfið okkar. Þessi tæpu 7.000 tonn sem við erum með leyfi til að ala er að vissu leyti takmarkandi þáttur í okkar rekstri,“ segir Gauti sem tók við stöðu framkvæmdastjóra félagsins árið 2021, en hann hafði starfað hjá félaginu frá árinu 2017 sem verkefnastjóri.

Nú stendur yfir umhverfismatsferli er varðar stækkun um 4.500 tonn að hámarkslífmassa.
„En svo eiga stjórnvöld eftir að sýna á spilin hvernig umgjörð greinarinnar verður háttað. Í gildandi lögum kemur fram að aukinn lífmassi skuli boðinn út. Í drögum að lagafrumvarpi sem ekki náði fram að ganga á síðasta ári var gert ráð fyrir að heimilt yrði að veita aukin eldisleyfi beint til fyrirtækja sem sýna fram á góðan árangur, t.a.m. með lágum afföllum og lúsasmitum,“ segir Gauti og bætir við að félagið hafi lagst í markvissar aðgerðir gegn laxalús. Þar hafi félagið beitt ýmsum aðferðum.
„Við höfum náðum mjög góðum árangri með fyrstu laxakynslóðunum sem við erum búin að slátra, og afföllin voru lág. Okkar stefna er sú að gefa fiskunum mikið pláss og reyna að hnjaska hann ekkert að óþörfu. Þannig hefur hann nægilegt rými til að vaxa og dafna og uppskera,“ bætir Gauti við.
Horfa fyrst og fremst til fyrirbyggjandi aðgerða
Á síðasta ári fjárfesti Háafell í nýrri tækni frá norska fyrirtækinu Stingray Marine Solutions. Búnaðurinn nýtir myndgreiningartækni til að greina lús á laxi í sjókvíum og eyða henni með leysigeisla – án þess að skaða fiskinn.
„Við settum búnaðinn upp í maí í fyrra og þrátt fyrir stuttan reynslutíma hefur hann gefist mjög vel,“ segir Gauti. „Það er mikil tækniþróun í greininni og því mikilvægt að vanda valið þegar kemur að fjárfestingum. Við kynntum okkur lausnina vel og hún hefur reynst okkur betur en við bjuggumst við.“

Háafell var fyrsta fyrirtækið hér á landi til að taka Stingray-búnaðinn í notkun. Áður höfðu forsvarsmenn fyrirtækisins heimsótt eldisbændur í Norður-Noregi, þar sem aðstæður eru svipaðar og á Íslandi. „Við sáum þar mjög góðan árangur og ákváðum að slá til. Tæknin fellur vel að stefnu okkar sem snýst um að beita fyrirbyggjandi aðgerðum fremur en grípa til meðhöndlunar - hvort sem það er með mekanískum aðferðum eða lyfjum.“
Til viðbótar við Stingray-tæknina notar Háafell fleiri aðferðir til að halda laxalús í skefjum. „Við notum hrognkelsi sem éta lúsina, lúsapils sem hindra að lirfur komist í kvíarnar, og aðferðir eins og að dæla ferskvatni í kvíarnar – sem lúsinni er illa við. Allar þessar lausnir, til viðbótar við Stingray-tæknina, hafa haldið lúsinni niðri.“

Vestfirðir ná vopnum sínum
Gauti rifjar upp hvernig stemningin var í samfélaginu þegar hann var að alast upp á Vestfjörðum. „Ég er fæddur árið 1993 og man vel eftir því að það fjaraði alltaf örlítið undan okkur á hverju ári. Nemendum í skólanum fækkaði smám saman, sem getur verið lýjandi til lengdar og hefur áhrif á samfélagsandann.“
En þróunin hefur snúist við. Á síðustu tíu árum hefur fólki fjölgað, fyrst á sunnanverðum Vestfjörðum og síðan á norðursvæðinu. „Ungt fólk hefur flutt heim og stemningin verður sífellt betri. Ég sé stöðugt ný andlit í leikskólanum þegar ég sæki krakkana, maður upplifði hið öfuga áður fyrr og þá er sérstaklega ánægjulegt að upplifa að það er allt léttara yfir þessu núna. Og allir sem hafa heimsótt Vestfirði á síðustu árum finna það - það er orka og stemning í samfélaginu, og hún skiptir máli.“
Að sögn Gauta hefur ýmislegt hjálpast að til að snúa þróuninni við. „Fiskeldið spilar stórt hlutverk, auk fyrirtækja eins og Kerecis, vaxandi ferðaþjónustu og blómlegs sjávarútvegs. Nýsköpun hefur fylgt í kjölfarið og fjölbreytni atvinnulífsins aukist til muna. Við horfum björtum augum til framtíðarinnar.“
Nánar er rætt við Gauta í sérblaði Viðskiptablaðsins um ársfund SFS. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.