Fiskkaup, sem vinnur, flytur út sjávarafurðir og þjónustar félög í sjávarútvegi, hagnaðist um 310 milljónir króna á síðasta ári og tvöfaldaði hagnaðinn frá fyrra ári. Rekstrartekjur námu tæplega 4,2 milljörðum króna og jukust um um 23,5%. Framlegð nam 871 milljón, samanborið við 601 milljón árið 2022. Félagið á og gerir út tvö skip og vinnslu í Reykjavík.

Í skýrslu stjórnar segir að rekstur félagsins á síðasta ári hafi verið góður og framlegð rekstrar verið um 21,1%. Efnahagur félagsins hafi aukist milli ára með kaupum á hlutdeildarfélaginu Marine Export ehf. Umrætt félag var metið á 198 milljónir króna í bókum félagsins í lok síðasta árs.

Eignir Fiskkaups námu tæplega 8 milljörðum króna í lok árs 2023, skuldir 6 milljörðum og eigið fé 1,9 milljörðum.

Ásbjörn Jónsson er framkvæmdastjóri félagsins en hann er jafnframt stærsti eigandi þess með 28% hlut. Stjórn félagsins leggur til að allt að 250 milljónir verði greiddar út í arð til hluthafa á yfirstandandi ári en sama fjárhæð var einmitt greidd út í arð árið 2023.