Mats­fyrir­tækið Fitch hefur lækkað láns­hæfis­mat Banda­ríkjanna í AA+ úr AAA.

Á­kvörðun Fitch kemur ör­fáum vikum eftir því að ríkis­sjóður Banda­ríkjanna var ná­lægt greiðslu­falli vegna deilna full­trúa­deildarinnar og Joe Biden for­seta um hækkun skulda­þaksins.

Fitch segir ó­reiðu í stjórn­málum og versnandi skulda­staða ríkis­sjóðs vera meðal á­stæðna fyrir á­kvörðuninni.

Um er að ræða í fyrsta skipti í meira en ára­tug sem eitt af þremur stóru mats­fyrir­tækjunum í Banda­ríkjunum lækkar láns­hæfis­mat Banda­ríkjanna.

Standards & Poors lækkuðu láns­hæfis­mat ríkisins úr AAA flokki í fyrsta skipti í sögunni árið 2011. Var sú á­kvörðun einnig tekin eftir harðar deilur í þinginu um hækkun skulda­þaksins.

Sögu­lega hafa ríkis­skulda­bréf banda­ríska ríkisins verið á­hættu­laus fjár­festing og sam­kvæmt The Wall Street Journal eru fáir sem telja það muni breytast með breyttu láns­hæfis­mati.

Mats­fyrir­tækið Moo­dys heldur láns­hæfis­mati Banda­ríkjanna enn í AAA.

„Geð­þótta­á­kvörðun byggð á úr­eltum gögnum“

Í rök­stuðningi Fitch segir að á­kvörðunin endur­spegli „upp­lausnina í stjórn­skipu­laginu“ síðustu tvo ára­tugi í saman­burði við önnur stór­veldi í heiminum.

„Endur­teknar deilur um skulda­þakið og lausnir á síðustu stundu hafa dregið úr trausti á ríkis­fjár­málunum,“ segir í á­kvörðun Fitch.

Ríkis­stjórn Joe Biden hefur gagn­rýnt á­kvörðunina og kennt ríkis­stjórn for­vera síns um skulda­vand­ræði Banda­ríkjanna.

Janet Yellen fjár­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna sagði í til­kynningu að lækkunin væri „geð­þótta­á­kvörðun byggð á úr­eltum gögnum.“